Vilja fjölþreifinn stjörnufræðing burt

Geoffrey Marcy er þekktur fyrir uppgötvanir sínar á reikistjörnum utan …
Geoffrey Marcy er þekktur fyrir uppgötvanir sínar á reikistjörnum utan sólkerfis okkar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. ANU

Meirihluti kennara í stjörnufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley vilja að samkennari þeirra, þekkti fjarreikistjörnufræðingurinn Geoffrey Marcy, verðir rekinn eftir að rannsókn á vegum skólans leiddi í ljós að hann hefði áreitt nemendur sína kynferðislega. Háskólinn hefur aðeins sett hann í tímabundið bann.

Fleiri en tuttugu núverandi og fyrrverandi starfsmenn stjörnufræðideildarinnar í Berkeley hafa skrifað undir bréf þar sem segir að hann verði að hverfa frá störfum sínum sem prófessor við deildina.

Stjórn háskólans tilkynnti ekki opinberlega um niðurstöður rannsóknarinnar á kynferðislegu áreiti Marcy gagnvart kvenkyns nemendum. Hún hefur varið meðferð sína á málinu og segir að Marcy sé á nokkurs konar skilorði og brjóti hann aftur af sér eigi hann á hættu að verða rekinn. Það hefði kallað á langdregið ferli innan deildarinnar sem væri þungt í vöfum.

Tvær kvennanna gáfu stjörnufræði upp á bátinn

Marcy hefur áður verið nefndur sem mögulegur Nóbelsverðlaunahafi framtíðarinnar vegna uppgötvana hans á fjarreikistjörnum á braut um fjarlægar stjörnur. Ásakanir um kynferðisbrot hafa þó loðað við hann lengi.

Rannsóknin á áreiti hans hófst í sumar eftir að fjórir fyrrverandi nemendur stigu fram og tilkynntu skólanum um athæfi hans. Háskólinn komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði gerst sekur um að þukla á stúlkum, kyssa þær, snerta eða nudda þær. Tvær af konunum sem tilkynntu um brot hans hafa síðan sagt skilið við stjörnufræði. Marcy var í kjölfarið settur á skilorð af háskólanum.

Sú ákvörðun var hins vegar ekki lýðum ljós þar til að vefsíðan Buzzfeed greindi frá málinu í síðustu viku. Í kjölfarið sendi Marcy frá sér afsökunarbeiðni sem mörgum gagnrýnenda hans þótti þó heldur aum. Þar fetti hann til að mynda fingur út í sumar ásakanirnar á hendur sér, þó að hann segðist axla ábyrgð á þeim.

„Það er erfitt að tjá hversu sársaukafullt það er fyrir mig að gera mér grein fyrir að ég hafi verið ástæða streitu fyrir einhverja af fyrrverandi samstarfskonum mínum, alveg sama þó að það hafi ekki verið með ráðum gert,“ sagði Marcy í yfirýsingu sinni.

Frétt NY Times af kynferðislegu áreiti Geoffreys Marcy

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert