Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu í dag áætlun sem ætlað er að aðstoða Tyrkland við að halda aftur af komu flóttamanna inn í álfuna.
Þessu greinir AFP frá og segir Tyrkland hafa farið fram á tilslakanir af hálfu ESB og fengið, s.s. auðveldari aðgang að vegabréfsáritunum fyrir Tyrki, fjárhagslegan stuðning og opnun nýrra kafla í viðræðum ríkisins um aðild að ESB. Samningaviðræður við Tyrkland höfðu staðnað vegna slæms aðbúnaðar í mannréttindamálum í landinu sem og skorti á trausti.
Eftir fund allra 28 leiðtoga ESB ríkjanna dag sagði Donald Tusk, forseti ráðherraráðsins að Tyrkland þyrfti að standa við skuldbindingar sínar þar sem „aðgerðaráætlunin er aðeins fýsileg ef hún heldur aftur af flæði flóttafólks.“Sagði hann að Tyrkland yrði að sýna ábyrgð og tryggja að vel væri staðið að skráningum hælisleitenda í landinu.
„Við þurfum svar og svar sem dugir frá Tyrknesku hliðinni, þeir eru félagar okkar í krísunni og „meira-fyrir-meira reglan“gildir“
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdarstjórnar ESB sagði sambandið þurfa að hraða vinnu við að gera vegabréfsáritanir aðgengilegri fyrir Tyrkland en lagði einnig áherslu á að ESB myndi ekki slaka á stöðlum sínum. Hann sagðist vera bjartsýnn en þó hóflega vegna samkomulagsins.
Samkvæmt BBC hafa næstum 600 þúsund flóttamenn farið sjóleiðis til landamæra ESB á þessu ári. Fara margir sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklands áður en haldið er áfram lengra norður. Samkvæmt AFP dveljast um 2,2 milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi nú.