Ríkisstjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta hefur dregið úr raunverulegum fjölda óbreyttra borgara sem hefur fallið í drónaárásum Bandaríkjahers. Herinn skráir mannfall í árásum sem óvini jafnvel þó að ekki hafi verið borin kennsl á fórnarlömbin, samkvæmt leyniskjölum sem hafa verið birt.
Fréttasíðan The Intercept, sem blaðamaðurinn Glenn Greenwald sem birti skjölin sem Edward Snowden lak um NSA stofnaði, birti skjölin um drónaárásir Bandaríkjamanna gegn meintum hryðjuverkamönnum í Miðausturlöndum og Mið-Asíu í gær en þeim var lekið af uppljóstrara. Obama hefur styrkt drónaáætlunin mjög frá því að hann tók við embætti árið 2009 og hefur heimilað mun fleiri árásir en forveri hans, George W. Bush.
Í gögnunum kemur fram að Bandaríkjaher skrái menn sem það fellir í drónaárásum sem „óvini“ jafnvel þó að ekki hafi verið borin kennsl á fórnarlömbin eða ekki sé enn vitað hvort skotmörk árásarinnar hafi raunverulega náðst. Árásirnar bani einnig oft fleira fólki en ætlunin er. Það gengur þvert á fullyrðingar varnarmálaráðuneytisins og hersins um að drónaárásir séu nákvæmar og leiði til lágmarksmannfalls.
Gögn um aðgerðir sem nefndust Haymaker í Afganistan hafi banað 200 manns frá janúar 2012 til febrúar 2013. Aðeins 35 þeirra voru hins vegar ætluð skotmörk árásanna. Á einu fimm mánaða tímabili voru 90% þeirra sem létust í drónaárásunum ekki ætluð skotmörk.
„Hver sá sem er staddur í grenndinni er sekur fyrir þá staðreynd,“ hefur The Intercept eftir ónefndum heimildamanni innan leyniþjónustuiðnaðarins sem lak skjölunum.
Þegar drónaárásir felli fleiri en eina manneskju sé engin trygging fyrir því að þær hafi átt þau örlög skilin.
Fullyrðingar bandarískra stjórnvalda þar sem dregið er úr fjölda óbreytta borgara sem hafa fallið í drónaárásum eru þess vegna í „besta lagi ýktar, ef ekki hreinar lygar“ segir heimildamaðurinn.
Josh Earnest, talsmaður Bandaríkjaforseta, segir að Obama hafi tekið þá stefnu að hafa eins mikið gagnsæi og mögulegt er um aðgerðir stjórnvalda gegn hryðjuverkum. Við þær aðgerðir hafi menn sig alla við að draga úr falli óbreyttra borgara.
Skjölin gefa einnig innsýn í hvernig upplýsinga er aflað um skotmörkin. Leyniþjónustumenn draga upp mynd af grunuðum hryðjuverkamönnum og hættunni sem stafar af þeim. Upplýsingar um hvern og einn einstaklinga á svonefndum „hafnarboltaspjöldum“ er svo komið til æðri embættismanna.
Þetta segir heimildamaðurinn að bjóði upp á huglægari nálgun sem sé frekar háð mannlegum mistökum. Hættan sé sú að þeir sem stjórni þessum fjarárásum telji sig hafa „guðlegt vald“.
Að meðaltali taki það 58 daga að fá forsetann til þess að samþykkja árásir á skotmörk en eftir það hefur herinn 60 daga til að láta til skarar skríða gegn þeim.
Þá viðurkenna stjórnvöld í skjölunum að upplýsingaöflun þeirra fyrir þessar árásir, sem byggist meðal annars á því að fylgjast með fjarskiptabúnaði, sé „léleg og takmörkuð“. Þrátt fyrir þetta er þessar upplýsingar grundvöllur helmings þeirra gagna sem notuð eru til að fylgja mögulegum skotmörkum í Sómalíu og Jemen.