Loka landamærunum við Króatíu

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. AFP

Yfirvöld í Ungverjalandi munu á miðnætti loka landamærum sínum við Króatíu, landamærum sem hafa verið ein helsta leið flóttamanna inn í landið. Þetta kom fram í máli utanríkisráðherra Ungverjalands í dag.

Á miðvikudaginn lýsti ríkisstjórn Ungverlands yfir að bygging girðingar milli landsins og Króatíu væri lokið og að landið væri undir það búið að loka landamærum sínum.

Í september lokaði Ungverjaland landamærum sínum við Serbíu, sem hafði fram að því verið helsta leið flóttafólks inn í landið, með hárbeittri gaddavírsgirðingu.

Það eina sem hafðist upp úr því starfi Ungverja var hins vegar að beina straumi flóttafólks inn í landið eftir öðrum leiðum, sérstaklega Króatíu.

Mikill þrýstingur hefur skapast á landamæri Ungverjalands, sem eru á suðurjaðri Schengen-svæðisins. Yfir 386.000 flóttamenn hafa farið um landið á árinu, og er búist við að sú tala nái 700.000 áður en árið er liðið.

Fólkið er flest á leið gegnum landið til Austurríkis og þaðan til Þýskalands eða Norðurlandanna.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir það hvernig hann hefur nálgast málefni flóttafólks, sem oft hefur verið sætt vafasamri meðferð í höndum lögreglu og hers í landinu. Orban segir á hinn bóginn að hann sé eingöngu að verja landamæri Evrópu, ólíkt Þjóðverjum sem hann segir hvetja fólk til að flýja til Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert