Hinn danski Allan Hamurkesen fann það sem honum fannst skemmtileg leið til að láta strákinn sinn, hinn fimm ára gamla Victor, vinna sér inn smá vasapening.
Allan tók Victor með á hjólaverkstæðið sitt í morgun og tók mynd af honum umkringdum hjólbörðum sem hann setti svo á Facebook-síðu verkstæðisins.
„Victor er með pabba í vinnunni. Hjálpið honum að fá vasapening. Fyrir hvert „like“ sem hann fær frá kl. 10:30 til 14 gefur pabbi honum 1 kr. Til að fara með í dótabúðina (d. fætter BR). Svo deilið deilið deilið.“
Allan lék svipaðan leik í fyrra þegar Viktor fékk einn líter af ís fyrir hver 100 „like“ og þá fór Viktor heim með sjö lítra af ís. Verkstæðið er með um 5.000 fylgjendur á Facebook og taldi Allam því að Victor myndi mest hreppa milli 2.000 og 3.000 „like“. Hann hafði rangt fyrir sér.
Klukkan tvö í dag hafði myndin fengið 33.676 „like“ sem þýðir að Victor mun eiga ansi góðan dag í dótabúðinni.
„Ég hafði aldrei í lífinu reiknað með að þetta myndi fá svona mörk „like“. Þetta var bara svona laugardagsgrín hjá okkur,“ sagði Allan í samtali við Berlingske og bætti við að líklega yrði minna úr ferðinni í leikfangaverslunina en efni Victors standa til. „Núna erum við að tala um að fara í Disneyland í staðinn.“
Allan hefur lofað að hann hyggist ekki svíkja barnið um peninginn sem samsvarar yfir 640 þúsund krónum. Hann segist ætla að millifæra peninginn og að hann muni birta kvittunina á Facebook svo allir sjái að hann standi við sitt. „Svo sjáum við til hvað peningarnir enda með að fara í.“