Fyrstu hjónin í dýrlingatölu

Louis og Zelie Martin eru fyrstu hjónin sem tekin verða …
Louis og Zelie Martin eru fyrstu hjónin sem tekin verða í dýrlingatölu kaþólsku kirkjunnar. AFP

Frans páfi mun í dag taka fyrsta gifta parið í dýrlingatölu. Athöfnin mun fara fram á Péturstorginu. Hjónin Louis og Zelie Martin, sem voru upp í Frakklandi á 19. öld, voru foreldrar dáðs dýrlings, heilagrar Theresu af Lisieux. 

Þau eignuðust níu börn en fjögur þeirra létust í frumbernsku. Fimm dætur komust á legg og gerðust þær allar nunnur. Theresa var yngst þeirra. Hún gekk í klaustur aðeins fimmtán ára gömul. Hún lést úr berklum aðeins 24 ára gömul árið 1897. Hún var tekin í dýrlingatölu árið 1925.

Í frétt BBC segir að Theresa af Lisieux njóti vinsælda meðal kaþólskra fyrir einfalt líf sitt. Sjálfsævisaga hennar, The Story of a Soul, hefur verið innblástur margra kaþólikka. Theresa er dýrlingur trúboða, fólks í flugi og þeirra sem fengið hafa AIDS.

Athöfnin á Péturstorginu verður einn helsti viðburður ráðstefnu kardínála og biskupa sem nú fer fram í Vatíkaninu. Á ráðstefnunni er m.a. sjónum beint að því hvernig megi hlúa betur að og styðja nútímafjölskyldur, þeirra á meðal kaþólska í samkynja samböndum og fólk sem hefur skilið og gifst aftur, segir í frétt BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert