Auðkýfingurinn Donald Trump segir að hann léti loka moskum til að berjast gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams yrði hann forseti. Samtök múslíma í Bandaríkjunum eru ósátt við ummæli hans og telja hann hvetja til að trúfrelsi þeirra verði skert.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump lætur vafasöm ummæli falla um minnihlutahópa í Bandaríkjunum í kosningabaráttu sinni í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Mikla athygli vakti þegar hann líkti innflytjendum við glæpamenn og nauðgara í júní.
Í viðtali við Fox Business Network var Trump spurður að því hvort að honum hugnaðist að loka vissum moskum í baráttunni gegn Ríki íslams eins og bresk yfirvöld hefðu gert.
„Ég myndi gera það, algerlega,“ svaraði Trump sem sagðist þó ekki vera viss um hvort það væri löglegt.
Bandarísk-íslamska samskiptaráðið, samtök múslíma, sögðu að vilji Trump til að loka moskum sem hann teldi öfgafullar samræmdist á engan hátt stjórnaskrá Bandaríkjanna og hugmyndum þjóðarinnar um trúfrelsi.
Trump hefur áður sagt að hann sé ekki á móti múslímum almennt heldur hafi hann áhyggjur af trúaröfgafólki.
„Ég elska múslímana. Mér finnst þeir frábært fólk,“ sagði hann í síðasta mánuði.