Dýrðardagar Evrópusambandsins á enda

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Evrópusambandið stendur frammi fyrir efnahagslegri hnignun til lengri tíma litið og áframhaldandi samrunaþróun innan sambandsins er í hættu. Þetta sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í ræðu sem hann flutti nýverið í Madrid, höfuðborg Spánar, um framtíðarhorfur sambandsins. Þetta kemur fram í dag á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

„Efnahagslega horfum við fram á endalok dýrðardaga Evrópusambandsins samanborið við það sem aðrir eru að gera,“ sagði Juncker og vísaði til annarra efnahagssvæða og ríkja í heiminum. Draumurinn um sameinaða Evrópu væri í hættu vegna deilna á grundvelli þjóðernis og aðskilnaðarhreyfinga. „Evrópusambandinu gengur ekki sérlega vel og við verðum að sjá til þess að haldið verði lífi í metnaðarfullum markmiðum sambandsins, vonum þess og draumum.“

Juncker benti á að hlutdeild Evrópusambandsins í landsframleiðslu á heimsvísu yrði brátt einungis 15% á meðan 80% hagvaxtar yrði í ríkjum utan sambandsins. Fram kemur í fréttinni að meðalaldur íbúa ríkja Evrópusambandsins verði sífellt hærri og íbúum þeirra fækki að sama skapi stöðugt. Þannig sé hlutfall Evrópubúa 7% af jarðarbúum í dag samanborið við 20% fyrir öld og gætu orðið einungis 4% í lok þessarar aldar.

„Lýðfræðileg staða okkar hefur veikst og verður þannig áfram,“ sagði Juncker. Þessi staða undirstrikaði nauðsyn þess að ríki Evrópusambandsins stæðu saman. Réttu viðbrögðin við þessari stöðu væru ekki að skiptast í fylkingar á forsendum þjóðernis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert