Sænska lögreglan segir að ástæðan fyrir morðunum í Trollhättan sé kynþáttahatur morðingjans og hann hafi valið fórnarlömb sín eftir uppruna þeirra. Morðinginn, Anton Lundin Pettersson, 21 árs einfari sem var á móti íslam og innflytjendum.
Niklas Hallgren, lögreglustjóri, segir í viðtali við sænska ríkisútvarpið að rannsóknin beinist að því að ársin hafi verið hatursglæpur. Samkvæmt vitnum virðist sem Pettersson hafi valið staðsetningu og fórnarlömb sín út frá uppruna þeirra.
Fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar, Peter Adlersson segir að meðal þess sé horft til þess hvernig hann klæddist og hvernig hann hegðaði sér þegar lögregla komst að þeirri niðurstöðu að um hatursglæp hafi verið að ræða.
Fyrrverandi bekkjarfélagi morðingjans segir í viðtali við Expressen að hann hafi verið einfari sem spilaði leiki í leikjatölvum og var í sínum eigin heim. Einhverjir fjölmiðlar segja að hann hafi verið með YouTube síðu þar sem hann setti inn efni þar sem hann hóf Adolf Hitler til skýjanna og Þýskaland á tímum nasista.
Árásarmaðurinn kom inn í grunnskólann í Trollhättan vopnaður sverði og myrti kennara og einn nemanda. Tveir eru alvarlega særðir á sjúkrahúsi. Fréttir sænskra fjölmiðla herma að ástand þeirra sé stöðugt en alvarlegt. Um er að ræða rúmlega fertugan kennara og fimmtán ára gamlan nemanda. Árásarmaðurinn var skotinn af lögreglu og lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.
Aftonbladet greinir frá því í dag að allir þeir sem létust og urðu fyrir árásinni eru af erlendum uppruna en þetta er ekki staðfest af lögreglu annað en að um hatursglæp hafi verið að ræða og að árásarmaðurinn hafi verið rasisti.