Saga móður sem ól barn um borð í flugvél á leið frá Taipei í Tævan til Los Angeles í Bandaríkjunum vakti þegar í stað mikla athygli. Flugfreyja aðstoðaði konuna við fæðinguna og var vélinni lent í Alaska. Barni og móður heilsast vel.
Í heimalandi konunnar hafa margir hafa velt fyrir sér af hverju konan fékk að ferðast með flugvélinni, komin svona langt á leið með meðgönguna og af hverju hún gerði það.
Sumir, þar á meðal ráðherrar í ríkisstjórn landsins, hafa jafnvel haldið því fram að hún hafi verið að flýta sér til Bandaríkjanna svo barn hennar yrði bandarískur ríkisborgari. Þá hafi konan logið til um lengd meðgöngunnar svo hún fengi að ferðast með vélinni.
Ráðherrarnir telja mögulegt að konan þurfi að greiða kostnaðinn sem fólst í því að lenda vélinni í Kanada áður en haldið var áfram til Bandaríkjanna.
Vangavelturnar hófust skömmu eftir að fregnirnar af fæðingunni komust í heimsfréttirnar og jukust enn frekar þegar konan var flutt aftur heim til Tævan frá Bandaríkjunum á laugardaginn og vildi ekki veita viðtöl. Barnið er enn í Bandaríkjunum í umsjón vinafólks konunnar.
Að sögn flugfélagsins mega konur sem eru komnar 32 vikur á leið eða lengra ekki ferðast með vélum þess. Konan fékk að fara um borð í vélina þar sem hún sagðist vera gengin mun styttra.