Rétt áður en niðurstöður opinberrar rannsóknar á innrásinni í Írak eiga að birtast hefur Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, viðurkennt að tengsl kunni að vera á milli innrásarinnar og uppgangs Ríkis íslams. Hann neitar þó enn að biðjast afsökunar á stríðinu sem hann hóf.
Búist er við því að farið verði hörðum orðum um notkun breskra stjórnvalda á upplýsingum sem bentu til þess að Saddam Hussein, þáverandi forseti Íraks, byggi yfir gereyðingarvopnum í skýrslu sem John Chilcot, fyrrverandi skrifstofustjóri málefna Norður-Írlands, hefur lengi unnið að um innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak árið 2003. Þá er talið að Chilcot muni gagnrýna slælegan undirbúning fyrir eftirmála innrásarstríðsins.
Í viðtali á CNN varði Blair innrásina, sem íslensk stjórnvöld studdu á sínum tíma, og benti meðal annars á borgarastríðið í Sýrlandi sem dæmi um afleiðingar aðgerðaleysis. Hann bauð hins vegar upp á skilyrta afsökunarbeiðni vegna sumra þátta innrásarinnar.
„Ég biðst afsökunar á þeirri staðreynd að upplýsingarnar sem við fengum hafi verið rangar. Ég biðst líka afsökunar á sumum mistökunum í áætlanagerðinni og vissulega á mistökum okkar í að skilja hvað kæmi til með að gerast þegar stjórnin yrði fjarlægð,“ sagði Blair.
Hann tók það hins vegar skýrt fram að hann teldi enn að rétt hafi verið að styðja bandarísk stjórnvöld í að ráðast inn í Írak og steypa Hussein af stóli.
„Mér finnst erfitt að biðjast afsökunar á að hafa fjarlægt Saddam,“ sagði Blair.
Þó að hann vísaði til Sýrlands sem dæmis um hættu þess að grípa ekki til aðgerða eins og í Írak viðurkenndi Blair að þeir sem segðu að Íraksstríðið væri orsök uppgangs Ríkis íslams hefðu nokkuð til síns máls.
„Ég held að það sé nokkuð til í því,“ sagði fyrrverandi forsætisráðherrann þegar hann var spurður að því hvort að innrásin í Írak hefði verið „meginorsök“ uppgangs Ríkis íslams.
„Auðvitað er ekki hægt að halda því fram að við sem fjarlægðum Saddam árið 2003 berum enga ábyrgð á ástandinu árið 2015,“ sagði Blair.
Gagnrýnendur Blair segja að með viðtalinu sé hann að reyna að koma afsökunum sínum á framfæri áður en skýrsla Chilcot kemur út þar sem hann viti fyrir víst að framganga hans verði gagnrýnd í henni. Chilcot ætlar að birta tímaáætlun um birtingu skýrslunnar á næstu tíu dögum, að því er kemur fram í frétt The Guardian.