Útlit fyrir stórsigur íhaldsmanna

Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi flokksins Lög og réttlæti.
Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi flokksins Lög og réttlæti. AFP

Pólverjar ganga að kjörborðinu í dag en búist er við að átta ára valdatíð sitjandi ríkisstjórnar muni líða undir lok eftir kosningarnar. Allt útlit er fyrir að íhaldssamir Evrópusambandsandstæðingar beri sigur úr býtum, flokkur sem hefur í kosningabaráttunni talað gegn móttöku flóttamanna.

Flokkurinn sem um ræðir nefnist Lög og réttlæti. Fyrir honum fer Jaroslaw Kaczynski. Vegni flokki hans vel í kosningunum er vel mögulegt að flokkurinn nái hreinum meirihluta í þingkosningunum. Þrátt fyrir 25 ára nánast samfellt hagvaxtarskeið í Póllandi og gríðarlega aukningu lífsgæða í landinu frá falli kommúnisma í landinu hafa velferðarmál og málefni innflytjenda verið í forgrunni í kosningabaráttunni.

Þrátt fyrir að búist sé við 3,5% hagvexti í landinu í ár og á næsta ári, og að að atvinnuleysi hafi nýlega farið niður fyrir 10%, þá er fjöldi kjósenda búinn að fá nóg af því sem þeir álíta sóun á tíma og peningum ríkisins.

„Hagvöxturinn í landinu, sem hélst þrátt fyrir efnahagskreppuna á árunum 2008 til 2009 er ekki núverandi ríkisstjórn að þakka heldur því að gríðarlegir fjármunir komu úr sjóðum Evrópusambandsins og vegna fjárfestingar í tengslum við Evrópukeppnina í fótbolta 2012,“ sagði Agnieszka, fertugur yfirmaður í verktakafyrirtæki í Varsjá, í samtali við fréttastofu AFP.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka