Framkvæmdastjóri snyrtistofu í Nevada fannst látinn og frosinn inn að beini í frystiklefa sem stofan notar í meðferðarskyni. Lögreglan í Nevada hefur lokað allri snyrtistofukeðjunni þar sem eigendur höfðu ekki leyfi til að framkvæma slíkar aðgerðir.
Fjölmargir fjölmiðlar vestanhafs fjölluðu um málið í gærkvöldi enda þykir það mjög sérstakt. Í frétt Huffington Post kemur fram að frosið lík Chelsea Ake, 24 ára framkvæmdastjóra Rejuvenice-stofunnar hafi fundist inn í frystiklefa (e. Cryotherapy Chamber) á snyrtistofunni. Klefinn er notaður til fegrunaraðgerða, m.a. til að „kæla andlitið og minnka svitaholur, fjarlægja hrukkur, örva kollagen framleiðslu, bæta teygjanleika húðarinnar og blóðflæði og til að lýsa brúna bletti,“ líkt og segir í grein um aðferðina í grein í Las Vegas Review-Journal, sem birtist tveimur dögum eftir að Ake lést. Í greininni var m.a. vintað til orða Ake um ágæti meðferðarinnar.
Það var samstarfsfélagi Ake sem kom að henni en heilbrigðiseftirlitið í Nevada telur að hún hafi verið inni í klefanum í að minnsta kosti tíu klukkustundir áður en lík hennar fannst. Talið er mögulegt að hún hafi dáið við að anda að sér köldu köfnunarefni (nitri) sem dælt er inn í klefann.
Læknar sögðu fjölskyldu Ake að hún hefði líklegast dáið á nokkrum sekúndum. Fjölskyldan segir í samtali við miðla vestan hafs að Ake, sem er ættuð frá Hawaii, hafi verið frosin í gegn og að húð hennar hafi verið blá.
Framleiðendur frystiklefanna segja að þeir eigi aldrei að læsast. Þá segja starfsmenn stofunnar að algengt sé að þeir noti klefana sjálfir án eftirlits.
Lík Ake verður krufið en niðurstaðna er ekki að vænta fyrr en að nokkrum vikum liðnum.