Vaxandi áhyggjur af Schengen

AFP

Sú ákvörðun stjórnvalda í Austurríki að reisa girðingu á landamærum landsins að Slóveníu markar ákveðinn tímamót í flóttamannavandanum innan Evrópusambandsins samkvæmt frétt AFP þar sem bæði ríkin eru í Schengen-samstarfinu. Samstarfið gengur einkum út á að hefðbundið landamæraeftirlit er fellt niður á milli aðildarríkja samstarfsins gegn því að það sé styrkt í sessi á ytri mörkum svæðisins.

Greint var frá ákvörðun austurrískra stjórnvalda í morgun en til þessa hafa aðeins verið reistar girðingar á ákveðnum stöðum á ytri mörkum Schengen-svæðisins líkt og á landamærum Ungverjalands að Serbíu. Ungverjar eru í Evrópusambandinu og Schengen en Serbar ekki. Ákvörðunin hefur þegar verið gagnrýnd harðlega og hafa þýsk stjórnvöld lýst því yfir að girðingar leysi ekki vanda Evrópusambandsins.

Fréttaskýring mbl.is: Schengen - hvað er það?

Ráðamenn í Austurríki segja girðinguna nauðsynlega til þess að ráða við straum flóttamanna og förufólks til landsins. Mikill fjöldi fólks hefur á undanförnu vikum og mánuðum farið í gegnum Austurríki, Slóveníu, Ungverjaland og Króatíu á leið sinni til annarra ríkja Evrópusambandsins. Einkum hefur straumurinn legið til Þýskalands og Svíþjóðar.

Slóvenar hafa einnig viðrað hugmyndir um að reisa girðingu á landamærum sínum að Króatíu ef boðaðar aðgerðir Evrópusambandsins til þess að styrkja landamæragæslu á ytri mörkum Schengen-svæðisins skila ekki árangri fljótt. Fram kemur í frétt AFP að áhyggjur af framtíð Schengen-samstarfsins fari vaxandi innan sambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert