Allra augu beinast að Vín

Særður sýrlenskur drengur bíður eftir læknishjálp í Douma, austur af …
Særður sýrlenskur drengur bíður eftir læknishjálp í Douma, austur af Damaskus eftir loftárásir stjórnarhersins í Sýrlandi. AFP

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon hvetur þá sem koma að samningaviðræðum stríðandi fylkinga í Sýrlandi sem haldnar verða í Vínarborg til þess að sýna sveigjanleika. Fundurinn verður haldinn í dag en í gær ræddu utanríkisráðherrar landanna sem koma að viðræðunum óformlega sín á milli.

Hann hvetur þau fimm ríki sem eru í aðalhlutverki á fundinum, það er Bandaríkin, Rússland, Íran, Sádi-Arabíu og Tyrkland, til þess að koma að viðræðunum með víðsýni í huga. 
Fundurinn er sá fyrsti þar sem Íranar eiga fulltrúa en ríkið styður stjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi líkt og Rússar. Bandaríkin og bandalagsríki þess telja útilokað að lausn finnist með aðkomu Assads.

Yfir 250 þúsund eru látnir síðan stríðið hófst í Sýrlandi fyrir fjórum árum en upphafi stríðsins má rekja til mótmæla gegn forseta landsins í mars 2011. Helmingur sýrlensku þjóðarinnar, eða 11 milljónir, hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsins.

Bæði Rússar og Íranar hafa tekið þátt í hernaði í Sýrlandi og stutt við bakið á stjórnarhernum.

Bandaríkin, Tyrkir, Sádi-Arabía og önnur ríki við Persaflóann vilja hins vegar að Assad fari frá völdum og að hann sé ekki inni í framtíðarmynd stjórnkerfis Sýrlands.

Ban segir að því lengur sem horft sé til hagsmuna eigin ríkis þá muni fleiri þjást og það þýðir þjáningar fyrir allan heiminn. „Eins og ég hef alltaf sagt, það er ekki til nein hernaðarlausn.“

Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Adel al-Jubeir, segir í viðtali við BBC að Íran verði að samþykkja brotthvarf Assads af valdastóli sem hluta af lausn deilunnar. Hann segir í viðtali við BBC að það sé ekki neinn möguleiki á að Assad verði áfram í embætti. Hvort sem það verður hluti af pólitískri lausn eða með valdi.

Frétt BBC

Sergei Lavrov, John Kerry, Adel al-Jubeir og Feridun Sinirlioglu
Sergei Lavrov, John Kerry, Adel al-Jubeir og Feridun Sinirlioglu AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert