Dæmd fyrir að hafa myrt dóttur sína

AFP

Spænsk hjón voru í dag dæmd sek um að hafa myrt tólf ára ættleidda dóttur sína og eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisvist.

Rosario Porto, fyrrverandi lögmaður og fyrrveranadi eiginmaður hennar, blaðamaðurinn Alfonso Basterra, voru ákærð fyrir að hafa gefið dóttur sinni, Asunta Yong Fang Basterra Porto, róandi lyf í þrjá mánuði og loks kyrkt hana í september 2013. Lík hennar fannst í skóglendi norðvestur af borginni Santiago de Compostela.

Réttarhöldin hafa staðið yfir í mánuð en foreldrarnir hafa haldið fram sakleysi sínu allan tímann. Þau ættleiddu Asunta þegar hún var ungbarn frá Kína. Yfir eitt hundrað vitni voru kölluð til en málið vakti mikla athygli bæði á Spáni og í Kína. Að sögn saksóknara var morðið skipulagt af báðum foreldrum en það var móðirin sem myrti stúlkuna. Porto sagði við réttarhöldin að hún hafi þjáðst af þunglyndi og að hún hafi sjálf tekið inn lyfið Orfidal og þess vegna hafi lyfið fundist á heimili þeirra. Þegar stúlkan lést voru þau skilin en stóðu saman að uppeldi hennar.

Rosario Porto
Rosario Porto AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert