Ráðamenn í Washington hafa „í marga mánuði“ rætt þann möguleika að senda bandaríska sérsveitarmenn til Sýrlands. Hefur fréttaveita AFP þetta eftir John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Kerry neitar hins vegar þeim vangaveltum sumra að tilkynning þess efnis að senda sérsveitarmenn þangað sé til þess fallin að hafa áhrif á þær friðarvæðræður sem haldnar eru í Vín, en markmið þeirra er að enda þau átök sem geisað hafa innan landamæra Sýrlands undanfarin ár.
„Forsetinn er staðráðinn í því að herða mjög átökin gegn Ríki íslams,“ hefur AFP eftir utanríkisráðherranum, en hann var þá staddur í Vín til þess að taka þátt í friðarviðræðum vegna Sýrlands.
Á fundinum eru fulltrúar 17 ríkja, þar á meðal frá Rússlandi og Íran en ríkin tvö eru yfirlýstir bandamenn Bashars al-Assad Sýrlandsforseta. Bandamenn hafa hins vegar til þessa sagt mikilvægt að forseti Sýrlands láti af stjórn.
Auk þess að senda hóp sérsveitarmanna til Sýrlands, sem meðal annars geta veitt mikilvæga aðstoð í tengslum við lofthernað bandamanna, hefur verið tekin ákvörðun um að senda orrustuflugvélar af gerðinni A-10 og F-15. Verða þær staðsettar á Incirlik-herflugvellinum í Tyrklandi.