Maðurinn sem felldi Berlínarmúrinn látinn

Günter Schabowski
Günter Schabowski AFP

Günter Schabowski, sem starfaði hjá hinu opinbera í Austur-Þýskalandi, er látinn 86 ára að aldri. Hann hefði sennilega aldrei ratað á spjöld sögunnar nema fyrir að hafa spunnið upp svar við spurningu blaðamanns hinn 9. nóvember 1989. Svar sem leiddi til falls Berlínarmúrsins.

Schabowski, sem annaðist fjölmiðlasamskipti Politburo á þessum tíma, lést í Berlín í morgun að sögn eiginkonu hans, Irina. 

Karl Blöndal segir skemmtilega frá falli Berlínarmúrsins í grein sem birtist í Morgunblaðinu 2009, 20 árum eftir fall Berlínarmúrsins. 

„Höfundur yfirlýsingarinnar, sem leiddi til þess að Berlínarmúrinn féll heitir Gerhard Lauter. Fyrir hádegi 9. nóvember sest hann að verki með þremur starfsfélögum sínum. Þeir ákveða að ganga lengra en þeim hafði verið falið án þess að spyrja yfirboðara sína. Slíkt hefði verið óhugsandi nokkrum árum fyrr. „Hægt er að sækja um einkaferðir til útlanda án þess að uppfylla þurfi skilyrði (tilefni ferðar eða aðstæður skyldmenna),“ hljómar ein lykilsetningin. Til að koma í veg fyrir að almenningur héldi að við tæki yfirgengileg bið eftir vegabréfsáritun sagði síðan: „Leyfi verða afgreidd með stuttum fyrirvara.“ Lokasetning yfirlýsingarinnar var á öðru blaði. Þar stóð að breytingarnar ættu að taka gildi 10. nóvember.

Þegar textinn var tilbúinn var allt kapp lagt á að bera hann undir helstu valdastofnanir Austur-Þýskalands auk þess sem stjórnvöld í Moskvu urðu að vita hvað stæði til. Þegar textinn var lesinn fyrir miðstjórn kommúnistaflokksins, sem þessa daga hélt sinn tíunda aðalfund, virðast menn hafa haldið að yfirlýsingin snerist um að í stað þess að þurfa að taka lest til Tékklands til að komast til Vestur-Þýskalands yrði hægt að komast beint frá Austur-Þýskalandi. Sovésk stjórnvöld lýsa einnig yfir velþóknun sinni, en gera sér heldur ekki grein fyrir því að textinn er ekki í samræmi við þær hugmyndir, sem settar höfðu verið fram tveimur dögum fyrr. Enginn áttaði sig á því að þessar setningar myndu tákna endalok Berlínarmúrsins.

Günter Schabowski hafði með höndum samskipti við fjölmiðla í kringum miðstjórnarfundinn. Skömmu fyrir blaðamannafund síðdegis 9. nóvember setur Egon Krenz, arftaki Honeckers, yfirlýsinguna í hönd Schabowskis, sem ekki hafði fylgst með þegar málið var kynnt miðstjórninni.

Á blaðamannafundinum les Schabowski tilkynninguna upp, en sleppir því að hún eigi að taka gildi daginn eftir. Þegar hann er spurður um gildistökuna blaðar hann í pappírunum, sem hann er með, og finnur ekki seinna blaðið. Hann segir því að hið nýja fyrirkomulag hljóti að taka gildi tafarlaust. Hann jánkar þegar hann er spurður hvort þetta eigi einnig við um Vestur-Berlín.

Fjölmiðlar eiga næsta leik. Orð Schabowskis valda miklu uppnámi. Reuters og dpa segja að nú megi austurþýskir borgarar ferðast út úr landinu, en AP gengur skrefi lengra og segir að búið sé að opna landamærin. Fólk byrjar að safnast saman við landamærastöðvar í Austur-Berlín. Mestur er mannfjöldinn í Bornholmer Strasse.

Skömmu fyrir ellefu um kvöldið tilkynnir fréttaþulurinn í vesturþýska ríkissjónvarpinu að austurþýsk stjórnvöld hafi opnað landamærin fyrir alla og frjálst sé að ferðast vestur yfir: „Hliðin á múrnum standa galopin.“

Schabowskis sagði í viðtali áratug síðar að hann myndi ekki segja að hann væri hetjan sem opnaði landamærin heldur hefði hann reynt að bjarga GDR (Austur-Þýskalandi). „Hinn 9. nóvember var ég enn kommúnisti.“ Hann var hins vegar rekinn úr flokknum fyrir að hafa fellt múrinn og síðan dæmdur í fangelsi árið 1997 og gerður ábyrgur, ásamt tveimur öðrum,  fyrir dauða óbreyttra borgara, sem reyndu að flýja til vesturs. Hann var náðaður árið 2000.

Günter Schabowski
Günter Schabowski AFP
AFP
Tveimur dögum eftir fall múrsins
Tveimur dögum eftir fall múrsins AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert