Yfir 218 þúsund flótta- og förufólk fór yfir Miðjarðarhafið til Evrópu í október sem er meiri fjöldi en allt árið í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.
Adiran Edwards, talsmaður flóttamannaaðstoðar SÞ, segir að aldrei áður hafi jafn margir flóttamenn komið svo margir til Evrópu.
Alls komu 218.394 flóttamenn til Evrópu í október, allir nema átta þúsund, komu að landi í Grikklandi. Allt árið í fyrra komu 216.054 yfir Miðjarðarhafið til Evrópu á flótta undan stríði, ofbeldi, fátækt ofl.
Það sem af er ári eru flóttamennirnir sem hafa komið til Evrópu orðnir 744 þúsund talsins.
Nýjar upplýsingar um fjöldann sýnir að þrátt fyrir versnandi aðstæður á hafi vegna veturkomu virðist ekki hafa áhrif á flóttafólk sem kemur frá Sýrlandi og fleiri löndum. Þeir halda áfram að fjölmenna vestur um haf enda óttast ýmsir að það styttist í að Evrópa skelli í lás og hætti að taka á móti flótta- og förufólki.
Yfir sex hundruð þúsund manns sem eru á flótta hafa komið til Grikklands í ár en 94% þeirra kom frá þeim tíu löndum sem flestir flýja. 3.440 hafa dáið eða horfið á flóttanum yfir Miðjarðarhafið til Evrópu í ár.
Inni þeirri tölu eru ekki þeir fimmtán hið minnsta sem fórust við strönd grísku eyjunnar Samos í gær. Sá hópur kom sjóleiðina frá Tyrklandi og átti aðeins 20 metra ófarna þegar bát þeirra hvolfdi. Nánast allir voru enn í káetu bátsins þegar hann sökk og drukknuðu án þess að komast frá borði.
Áður fórust flestir á lengri og mun hættulegri sjóferðum til Ítalíu en á sama tíma og þeim fjölgar sem reyna að komast sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklands þá hafa fleiri týnt lífi á þeirri leið. Á einum mánuði hafa yfir áttatíu farist við strönd Grikklands og er hátt hlutfall þeirra börn.