Vélin gæti hafa verið sprengd upp

Rannsakendur skoða þotuna sem hrapaði á laugardaginn.
Rannsakendur skoða þotuna sem hrapaði á laugardaginn. AFP

Öllum flugferðum sem áttu að fara frá egypska strandstaðnum Sharm el Sheikh til Bretlands í kvöld verður frestað vegna öryggisástæðna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkisstjórn Bretlands. Er þessi ákvörðun tekin í ljósi upplýsinga sem benda til þess að rússnesk farþegaþota sem hrapaði á Síníaskaga á leið frá Sharm el Sheikh á laugardaginn gæti hafa verið sprengd upp.

Þotan var á leið til Sankti Pétursborgar og létu allir 244 um borð lífið. Eðli brotlendingarinnar og sú staðreynd að ekkert neyðarkall barst áður en þotan hrapaði hefur leitt til vangaveltna um hvort að þotan hafi verið sprengd upp með sprengju innanborðs eða skotin niður af eldflaug.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að þó ekki sé hægt að segja til um ástæðu brotlendingarinnar hafa komið í ljós upplýsingar sem gætu bent til þess að flugvélin hafi brotlent vegna sprengju.

Þar af leiðandi er öllum flugferðum frá Sharm el Sheikh til Bretlands frestað þar til breskir sérfræðingar rannsaka öryggisaðstæður á flugvellinum þar í borg.

Rannsókinninni á að ljúka í kvöld.

„Við leggjum áherslu á að þetta er aðeins varúðarráðstöfun og við erum að vinna náið með flugfélögunum sem þetta snertir,“ sagði talskona ríkisstjórnarinnar í dag.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ræddi við forseta Egyptalands, Abdel Fattah al Sisi í gærkvöldi um öryggisráðstafanir á flugvelli staðarins.

Í frétt Sky News er vitnað í sérfræðing stöðvarinnar sem segir það mjög óeðlilegt að taka svona ákvörðun ef hún er ekki byggð á traustum upplýsingum.

Flugvöllurinn í Sharm el Sheikh
Flugvöllurinn í Sharm el Sheikh Af Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert