Þau markmið sem 146 þjóðir hafa sett sér um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda eru langt í frá nóg til að koma í veg fyrir hættulega hlýnun jarðar. Þetta er niðurstaða skýrslu Sameinuðu þjóðanna, en miklar vonir hafa verið bundnar við að ríki heims nái saman um marktækar aðgerðir á loftslagsráðstefnunni í París, sem hefst í lok nóvember.
Samkvæmt SÞ telja heitin aðeins þriðjung þess sem til þarf til að koma í veg fyrir „ofhitnun“ jarðarinnar. Framkvæmdastjóri UNEP, umhverfisstofnunar SÞ, segir skuldbindingar ríkjanna sögulegar en þær dugi ekki til að takmarka hlýnunina við tvær gráður.
Vísindamenn segja að hlýnum umfram tvær gráður muni hafa í för með sér hörmulegar afleiðingar, s.s. fordæmalausa þurrka, ofurfellibyli og fjöldaflutninga. Eins og sakir standa stefnir í þriggja gráðu hlýnun eða meira árið 2100.
Aðrir vísindamenn hafa reyndar sagt að hin hættulegu mörk liggi á bilinu 2,7 gráður og 3,5 gráður.
Án hinna svokölluðu INDC, Intended Nationally Determined Contributions, má vænta þess að heildarlosun gróðurhúsaloftegunda í heiminum muni nema um 60 milljörðum tonna fyrir árið 2030.
Ef loforð hinna 146 ríkja sem hafa tilkynnt um losunarmarkmið eru tekin inn í reikninginn minnkar losunin í 54 milljarða tonna en ef takmarka á hlýnunina við tvær gráður má hún ekki verða umfram 42 milljarða tonna.
Í skýrslunni segir að ljóst sé að miklu muni, bæði á markmiðum fyrir 2025 og 2030. Margir vísindamenn segja bráðunauðsynlegt að breyta stefnu losunarkúrfunnar og það sem allra fyrst. Því lengur sem við bíðum, segja þeir, því vandasamari og dýrari verða umskiptin yfir í grænni hagkerfi.
Vísindamennirnir segja að losunin verði að vera komin niður í núll 2075.
Ríkin 146 eru ábyrg fyrir 88% allrar losunar en loforð margra þróunarríkja eru háð því að staðið verði við fyrirheit um fjárhagsaðstoð þeim til handa, bæði til að draga úr losun og til að stuðla að fyrirbyggjandi aðgerðum vegna afleiðinga hlýnunar.
Fjármögnun verður líklega eitt helsta hitamálið í París.
Það er eitt ljós í myrkrinu; margir greinendur segja að líklega séu INDC-heit þjóðanna íhaldssöm og svigrúm sé fyrir hendi til að draga enn frekar úr losun. Annað mál sem verður til umræðu í París er einhvers konar kerfi til að fylgjast með því hvernig ríkin eru að standa sig, sem á jafnframt að virka sem hvatning til þeirra um að endurskoða áætlanir sínar þegar fram líða stundir.