Tísta tíðahringnum undir #repealthe8th

Forsætisráðherrann verður væntanlega margs vísari um tíðahring kvenna á næstu …
Forsætisráðherrann verður væntanlega margs vísari um tíðahring kvenna á næstu dögum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Írskar konur hafa gripið til þess ráðs að tísta smáatriðum um tíðahringi sína til forsætisráðherrans Enda Kenny, í herferð gegn strangri fóstureyðingalöggjöf landsins. Á Írlandi liggur allt að 14 ára fangelsi við ólögmætum fóstureyðingum.

Konurnar tísta undir myllumerkinu #repealthe8th, en markmið herferðarinnar er að þrýsta á um endurskoðun áttunda ákvæðis stjórnarskrárinnar, sem bannar fóstureyðingar á þeirri forsendu að líf fóstursins sé jafnhátt lífi móðurinnar.

Það var Grainne Maguire sem hratt herferðinni úr vör. „Konur Írlands! Píkan ykkar er þeirra mál! Tístið @EndaKennyTD tíðahring ykkar #repealthe8th“

Áætlað er að um tíu konur ferðist frá Írlandi til Bretlands eða annars Evrópuríkis á degi hverjum til að gangast undir fóstureyðingu. Til að breyta stjórnarskránni þarf að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, en þess er skemmst að minnast að Írar gengu til þjóðaratkvæðagreiðslu á dögunum og samþykktu hjónabönd samkynja einstaklinga.

Kenny hefur ekki svarað á Twitter en hann hefur sagt að hann muni ekki skuldbinda flokk sinn til að halda atkvæðagreiðslu um málið.

Írsku heilbrigðisstarfsfólki er aðeins heimilt að framkvæma fóstureyðingu ef líf móðurinnar er í hættu, en engin nákvæm skilgreining er til á því hvað telst lífshætta í þessu sambandi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert