Sprenging heyrist á upptöku flugrita

Farþegaþotan hrapaði í Síníaskaga. Allir 244 um borð létu lífið.
Farþegaþotan hrapaði í Síníaskaga. Allir 244 um borð létu lífið. AFP

Sprenging heyrist á upptöku flugrita rússnesku farþegaþotunnar sem hrapaði í Egyptalandi fyrir viku síðan. Fréttaveitan AFP greinir frá þessu í dag og vitnar í ónefndan sérfræðing sem segist hafa aðgang að upptöku flugritans. Annar heimildarmaður fréttastofunnar sem tengist rannsókninni segir að vélinni hafi verið tortímt skyndilega. „Allt var eðlilegt í fluginu, alveg eðlilegt, allt í einu var ekkert,“ er haft eftir heimildarmanninum.

Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð á brotlendingunni en hefur ekki veitt neinar upplýsingar um hvernig hún var framkvæmd. Segja hryðjuverkamennirnir að árásin hafi verið hefnd fyrir loftárásir Rússa í Sýrlandi.

Ef um Ríki íslams var að ræða er þetta í fyrsta skiptið sem samtökin ráðast á farþegaþotu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, greindi frá því að stjórnvöld þar í landi „íhuguðu alvarlega“ möguleikann á því að sprengja hefði grandað vélinni. Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron hefur tekið í sama streng.

Egypsk yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir öryggisráðstafanir á flugvöllum sínum síðan að málið kom upp. Bresk yfirvöld frestuðu öllum flugferðum frá flugvellinum í Sharm el-Sheikh á miðvikudaginn og hefur ringulreið skapast á staðnum en 20.000 breskir ferðamenn urðu strandaglópar. Byrjað var að ferja fólkið heim í gær en það hefur tekið lengri tíma en búist var við.

Brotlendingin mun mögulega hafa mjög slæm áhrif á ferðamannaiðnaðinn í Egyptalandi. Sharm el-Sheikh er einn af „demöntum“ egypsks ferðamannaiðnaðar með fjölmörgum lúxushótelum og næturlíf sem dregur að sér fólk frá öllum heimshornum. Þrjár til fjórar milljónir ferðamenn komu til Sharm el-Sheikh á ári þar til 2011 þegar þáverandi forseta landsins, Hosni Mubarak, var steypt af stóli.

Bandarískir embættismenn hafa sagst hafa upptökur af samræðum hryðjuverkamanna Ríkis íslams á Síníaskaga og í Sýrlandi þar sem þeir ræða það að hafa grandað þotunni. „Þeir voru augljóslega að fagna,“ var haft eftir bandarískum embættismanni í fréttatíma NBC.  

Frétt Sky News. 

Ferðamenn bíða á flugvellinum í Sharm el-Sheikh.
Ferðamenn bíða á flugvellinum í Sharm el-Sheikh. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka