Palestínsk kona sem reyndi að stinga ísraelskan öryggisvörð á eftirlitsstöð á Vesturbakkanum í morgun var skotin til bana.
Verðir skutu viðvörunarskotum eftir að konan kom á stöðina vopnuð en hún virti viðvöruna að vettugi og var skotin til bana í kjölfarið af öryggisvörðum, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum.
Í tösku hennar fundust tvö bréf þar sem fram kom áætlun um sjálfsvígsárás, samkvæmt upplýsingum úr varnarmálaráðuneyti Ísraels.
Konan hét Rasha Uweisseh, 23 ára, frá Qalqilya. Undanfarnar vikur hefur ítrekað komið til ofbeldis milli Ísraela og Palestínumanna á Vestubakkanum, Ísrael og á Gazaströndinni.
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, er í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum og þar mun hann funda með Bandaríkjaforseta, Barack Obama, en það er þeirra fyrsti fundur í meira en ár.
Frá því í byrjun október hafa 74 Palestínumenn verið drepnir en helmingur þeirra var sakaður um að hafa ráðist á Ísraela. Tíu Ísraelar og einn arabískur Ísraeli hafa einnig verið drepnir.