Spænskur læknir, sem lýstur var látinn árið 2010, fannst nýverið í skógi í Toscana á Ítalíu þar sem hann hafðo hafst við allt frá því að hann hvarf af heimili sínu árið 1997. Tveir Ítalir sem voru í skóginum að leita að sveppum fundu hann fyrir tilviljun. Fjallað er um málið á fréttavefnum Thelocal.it en maðurinn er 47 ára gamall í dag.
Maðurinn, Carlos Sánchez Ortiz de Salazar, lét sig hverfa af heimili sínu í Seville á Spáni fyrir 18 árum síðan en hann þjáðist þá af miklu þunglyndi. Þegar ekkert hafði spurst til hans árum saman var hann lýstur látinn af spænskum yfirvöldum árið 2010. En fyrir tveimur vikum fannst hann í ítalska skóginum þar sem hann hafði komið sér fyrir.
Fólkinu brá í fyrstu þegar það rakst á manninn og flúðu burt en sneru loks til baka með skógaverði. Maðurinn tók á móti þeim og kynnti sig. Hann sagðist ekki vilja búa innan um annað fólk og þar sem íverustaður hans væri fundinn þyrfti hann að fara eitthvað annað. Maðurinn sýndi þeim meðal annars gamals vegabréf þar sem fram kom hver hann væri.
Yfirvöld voru látin vita sem höfðu samband við foreldra mannsins. Farið var aftur á staðinn en hann var þá horfinn á braut og þrátt fyrir leit fannst hann ekki. Haft er eftir foreldrum hans að þeir virði frelsi hans en þau langi engi að síður að faðma hann á nýjan leik. Þó það væri í síðasta skiptið.