Frakkland búið með peninginn

AFP

Frá miðnætti hefur franska ríkið eytt öllu því fé sem aflað hefur verið með skattheimtu og verður fram að áramótum að reka sig með lántökum. Þetta kemur fram á fréttavefnum Thelocal.fr en fjárlög Frakklands vegna yfirstandandi árs hljóða upp á 390 milljarða evra.

Þetta þýðir að Frakkland verður að bæta við um 2.000 milljarða evra skuld landsins til þess að geta rekið sig fram að áramótum, segir í fréttinni. Talið er að franska ríkið þurfi að taka lán fyrir um 70 milljörðum evra, sem bætist við skuldina, til þess að ná endum saman fyrir áramót.

Fréttin er byggð á niðurstöðum úttektar sem hugveitan Molinari Institute hefur unnið, þar sem horft er til 28 ríkja Evrópusambandsins og reiknað út hvenær hvert og eitt þeirra hefur fullnýtt skatttekjur sínar vegna yfirstandandi fjárlagaárs.

Fram kemur í niðurstöðunum að í tilfelli Frakklands hafi ríkissjóður landsins verið rekinn með halla í 35 ár samfleytt. Skuldasöfnun er hjá landstjórninni, sveitarstjórnum og innan velferðarkerfisins.

Samkvæmt niðurstöðunum verður Bretland búið með skattfé sitt á morgun, Írland 23. nóvember og Ítalía tveimur dögum fyrr. Einhver afgangur verður hins vegar á fjárlögum Þýskalands og Danmerkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert