Nauðgað 43 þúsund sinnum

AFP

Karla Jacinto var aðeins tólf ára gömul þegar hún flutti að heiman með karlmanni sem var tíu árum eldri en hún. Hann lofaði henni gulli og grænum skógum og var hún fegin að losna frá móður sinni.

Fjórum árum síðar slapp hún frá kvölurum sínum en þá hafði henni verið nauðgað rúmlega 43 þúsund sinnum. Saga hennar veitir innsýn inn í grimman veruleika marga kvenna í Mexíkó og Bandaríkjunum, mansals sem hefur eyðilagt líf fjölda kvenna líkt og Jacinto.  Í samtali við CNN segist hún hafa verið misnotuð svo lengi sem hún man eftir sér og alltaf fundið fyrir höfnun frá móður sinni.

Hún var ekki há í loftinu þegar hún sat á lestarstöð í Mexíkóborg og beið eftir vinum sínum. Lítill drengur sem var að selja sælgæti kom til hennar og sagði henni að einhver hefði viljað senda henni sælgæti að gjöf. Fimm mínútum síðar gaf maður, sem var nokkuð eldri en hún, sig á tal við hana og sagðist hann selja notaða bíla.

Allur vandræðaleiki í samskiptum þeirra hvarf þegar maðurinn greindi henni frá því að hann hefði einnig verið misnotaður í barnæsku. „Hann var ástúðlegur og sannur herramaður,“ segir Jacinto. Þau skiptust á símanúmerum og var hún spennt þegar hann hringdi í hana viku síðar. Bauð hann henni með í ferðalag og tók ekki langan tíma að sannfæra hana um að flytja hreinlega að heiman, sérstaklega eftir að móðir hennar hleypti henni ekki inn eitt kvöldið af því að hún hafði komið aðeins of seint heim.

Fyrst um sinn var líf þeirra fullt af gleði. Hún setti þó spurningarmerki við ýmislegt en maðurinn skildi hana stundum eftir eina í íbúðinni í viu. Þá komu frændur hans af og til með stelpur, aldrei þær sömu. Þegar hún fann loksins hjá sér hugrekki til að spyrja hann hvað þeir hefðu fyrir stafni sagði hann sannleikann. „Þeir eru melludólgar,“ sagði hann.

Fljótlega var Jacinto komið inn í starfssemina. Henni var sagt fyrir verkum, hvaða stellingar væru ákjósanlegastar, hversu mikið hún átti að rukka viðskiptavinina, hvað hún þurfti að gera fyrir viðskiptavininn og hversu lengi. Hún átti að þjónusta að lágmarki þrjátíu viðskiptavini á degi hverjum, alla sjö daga vikunnar.

Þegar Jacinto var fimmtán ára ól hún stúlkubarn. Barnið var tekið frá henni einum mánuði eftir fæðingu þess og fékk hún ekki það fyrr en hún var rúmlega árs gömul. Jacinto var loksins bjargað árið 2008. Í dag er hún 23 ára og hefur sagt sögu sína víða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka