Þúsundir sækja gegn Ríki íslams

Hermenn í Írak stilla sér upp með fána Ríkis íslams …
Hermenn í Írak stilla sér upp með fána Ríkis íslams en fánanum snúa þeir á hvolf. AFP

Í morgun hófst stórsókn Kúrda í Írak gegn vígamönnum Ríkis íslams en markmið árásarinnar er að brjóta liðsmenn vígasamtakanna á bak aftur og ná þannig yfirhöndinni í borginni Sinjar. Njóta þeir liðsinnis Bandaríkjahers í áhlaupinu.

Fréttaveita AFP greinir frá því að takist Kúrdum ætlunarverk sitt mun það hafa talsverð áhrif á birgðaflutninga Ríkis íslams til nágrannaríkisins Sýrlands.

Árásin hófst klukkan 04:00 að íslenskum tíma og greinir AFP frá því að orrustuþotur Bandaríkjahers og stórskotaliðssveitir Kúrda hafi samtímis gert árásir á skotmörk tengd Ríki íslams í og við borgina Sinjar. Að sögn sjónarvotta lagði því þykkan reykjarmökk yfir svæðið.  

Talið er að um 7.500 hermenn sæki nú að borginni og munu orrustuþotur bandalagssveita, einkum Bandaríkjanna, veita þeim aðstoð á meðan aðgerðir standa yfir. Inni í borginni eru um 300 til 400 vígamenn Ríkis íslams samkvæmt upplýsingum frá leyniþjónustu Bandaríkjahers.

Helst er óttast að vígamenn hafi, á því rúma ári sem þeir hafa ráðið yfir borginni, komið fyrir alls kyns sprengjum og gildrum sem ógnað geta mjög öryggi hersveita Kúrda, en til þessa hafa engar fregnir borist af mannfalli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert