Böðullinn Mohammed Emwazi, eða Jihadi John eins og hann var nefndur áður en til nafnbirtingar kom, var skotmark loftárása Bandaríkjahers í Sýrlandi í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum bandaríska varnarmálaráðuneytisins voru gerðar loftárásir á búðir Ríkis íslams skammt frá Raqqa þar sem talið var að Emwazi héldi sig.
Bætt við fréttina klukkan 8.49 - samkvæmt heimildum BBC lést Emwazi í árásinni en það hefur ekki verið staðfest formlega.
Emwazi, sem er fæddur í Kúveit, er 27 ára og menntaður í Lundúnum. Breska leyniþjónustan hefur vitað af honum í talsverðan tíma. Hann birtist fyrst í myndbandi í ágúst í fyrra þar sem hann tók bandaríska blaðamanninn James Foley af lífi. Hann er einnig talinn hafa birst í myndböndum sem sýna afhöfðanir blaðamannsins Stevens Sotloff, breska hjálparstarfsmannsins David Haines, breska leigubílstjórans Alans Henning og bandaríska hjálparstarfsmannsins Abduls-Rahman Kassig, sem gekk einnig undir nafninu Peter.
Varnarmálaráðuneytið bíður nú staðfestingar á því hvort Mohammed Emwazi hafi látist í árásunum í gærkvöldi.
Samkvæmt upplýsingum BBC var gerð árás á ökutæki sem talið var að Emwazi væri farþegi í en grannt hafi verið fylgst með honum í þó nokkurn tíma með leynd.
Mohammed Emwazi er fæddur árið 1988 í Kúveit en flytur til Bretlands 1994. Hann lauk námi í tölvunarfræði frá Westminster-háskólanum árið 2009 og í ágúst það sama ár ferðaðist hann til Tansaníu ásamt tveimur vinum í safaríferð. Honum var synjað um að fá að fara inn í stærstu borg landsins, Dar es Salaam, og sendur með flugi til Amsterdam. Eftir yfirheyrslur þar snýr hann aftur til Dover.
Í september 2009 fer hann til Kúveit þar sem hann dvelur hjá föðurfjölskyldunni. Emwazi kom til Bretlands aftur í júlí 2010 og ætlaði að stoppa í stuttan tíma en gat ekki snúið aftur til Kúveit þar sem honum var synjað um vegabréfsáritun. Árið 2012 stóðst hann Celta-prófið og fékk því leyfi til þess að kenna ensku. Árið 2013 skipti hann um nafn og reyndi að fara til Kúveit en var stöðvaður. Lætur sig hverfa og foreldrar hans tilkynna hvarf hans. Lögregla kemst á snoðir um hvar hann er fjórum mánuðum síðar er til hans sést í Sýrlandi.
Þar sést „Jihadi-John“ afhöfða Haines en auk þess hafa birst fleiri myndskeið þar sem böðullinn sést afhöfða fleiri vestræna gísla