Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu í kjölfar skot- og sprengjuárásarinnar í París í kvöld. Forsetinn var staddur á landsleik Frakklands og Þýskalands í knattspyrnu þegar árásirnar voru gerðar og var hann fluttur í skyndi í innanríkisráðuneytið. Þar var í kjölfarið boðað til neyðarfundar vegna árásanna.
„Frakkland verður að sýna styrk gagnvart hryðjuverkum,“ sagði Hollande í ávarpi til frönsku þjóðarinnar í kvöld sem bæði var útvarpað og sjónvarpað. Árásirnar væru án fordæma. „Hryðjuverkaárásir eiga sér nú stað í París. Það er hræðilegt. Við höfum kallað út allt það lið sem við höfum yfir að ráða,“ sagði forsetinn ennfremur en franski herinn hefur meðal annars verið settur í viðbragðsstöðu og landamærum Frakklands hefur verið lokað.
„Við vitum ekki hverjir standa fyrir þessu en þetta eru hryðjuverkamenn,“ sagði Hollande ennfremur. Gripið yrði til allra mögulegra ráða til þess að stöðva hryðjuverkamennina. „Það sem hryðjuverkamennirnir vilja gera er að hræða okkur, fylla okkur ótta,“ sagði hann en bætti við að franska þjóðin kynni að verja sig.