Ættingjar árásarmanns handteknir

Franskur lögreglumaður heldur um riffil utan við Bataclan í dag.
Franskur lögreglumaður heldur um riffil utan við Bataclan í dag. AFP

Faðir og bróðir eins af árásarmönnunum við Bataclan í París eru nú í gæsluvarðhaldi samkvæmt heimildarmönnum AFP. Leitað var á heimili föðursins í Romilly-sur-Seine, smábæ um 80 mílur austur af París og bróðursins í Essonne íParís. Einnig var leitað á heimilum annarra ættingja og vina mannsins. Bróðirinn sem er 34 ára gamall hafði sjálfur samband við lögreglu.

Árásarmaðurinn var 29 ára gamall franskur ríkisborgari. Lögregla vissi af öfgafullum hugmyndum  mannsins en ekki af neinum beinum tengslum við öfgahópa. Borin voru kennsl á hann með fingaförum af fingri sem var aðskilinn frá öðrum líkamshlutum mannsins en hann sprengdi sig í loft upp.

Þrír hópar

Francois Molins, saksóknari í París, segir að svo virðist sem þrír hópar hafi verið að verki við skot- og sprengjuárásirnar í París í gær og að aðgerðir þeirra hafi verið samræmdar. Er talið að þeir hafi skipt sér á milli Stade de France, og tveggja bifreiða, annars vegar svartrar Seat bifreiðar sem sást á mörgum af árásarstöðunum og svartrar VW Polo bifreiðar.

Önnur bifreiðin sem notuð var við árásina var skráð á franskan ríkisborgara sem hafði verið stöðvaður við landamæri Frakklands og Belgíu. Þá voru tveir með honum í bílnum og bjuggu þremenningarnir í Belgíu. Mennirnir voru ekki þekktir af yfirvöldum.

Yfirvöld í Belgíu hafði þegar greint frá því að nokkur fjöldi hafi verið handtekinn í landinu eftir að í ljós kom að bíll með belgískt númer hafði sést nálægt Bataclan tónleikahöllinni í París í gærkvöldi.

Sýrlenskt vegabréf fannst á vettvagni Stade de France og er það talið tilheyra einum sjálfsmorðssprengjumannanna. Vegabréfið tilheyrir karlmanni fæddum 1990 en ekki er ljóst hvort það tilheyri í raun árásarmanninum þar sem sýrlensk vegabréf eru afar verðmæt og gjarnan keypt af öðrum sem vilja komast til Evrópu.

Þegar þetta er skrifað eru 129 látnir og 352 særðir, þar af eru 99 sagðir sérlega alvarlega særðir.

Frá Bataclan í dag.
Frá Bataclan í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert