„Blóð og lík út um allt“

Sjúkraflutningamenn að störfum við Bataclan-tónleikahöllina í París í nótt. Talið …
Sjúkraflutningamenn að störfum við Bataclan-tónleikahöllina í París í nótt. Talið er að áttatíu manns hafi látist í árásinni í höllinni í nótt. AFP

Skelfdir tónleikagestir sem komust lífs af er árás var gerð í tónleikahöll í París í gær, segjast hafa þurft að hlaupa yfir lík og fela sig fyrir byssumönnum. Árásarmennirnir komu inn í tónleikahöllina og hófu að taka tónleikagesti af lífi. Þeir notuðu vélbyssur við verkið og skothríðin glumdi í öllu húsinu. 

Útvarpsmaðurinn Pierre Janaszak sat á svölum í tónleikasalnum ásamt systur sinni og vinum er skothríðin hófst um klukkustund eftir að tónleikar rokksveitarinnar Eagles of Death Metal hófust. „Í fyrstu héldum við að þetta væri hluti af sýningunni en við áttuðum okkur fljótt að þetta var eitthvað allt annað,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. „Þeir ættu ekki að skjóta. Það var blóð út um allt, lík út um allt. Við heyrðum öskur. Allir voru að reyna að flýja.“

Janaszak og vinir hans földu sig inni á klósetti og voru þar í tvo tíma allt þar til að lögreglan gerði áhlaup á bygginguna og kom fólkinu til bjargar. Talið er að í það minnsta áttatíu manns hafi dáið í árásinni í tónleikahöllinni.

„Þeir tóku um 20 manns í gíslingu, og við heyrðum þá tala við gíslana,“ segir Janaszak. „Ég heyrði þá segja við þá: „Þetta er allt Hollande [Frakklandsforseta] að kenna, þetta er forsetanum ykkar að kenna. Hann átti ekki að skipta sér af Sýrlandi“,“ segir Janaszak. Hann segir árásarmennina einnig hafa talað um Írak. 

Annar útvarpsmaður segir að í „tíu hræðilegar mínútur“ hafi svartklæddur maður skotið og skotið. Sá hafi virst inn rólegasti. „Þetta var blóðbað,“ segir fréttamaðurinn Julien Pearce. „Fólk öskraði, hrópaði og allir lágu á gólfinu. Skothríðin stóð yfir í tíu mínútur, tíu mínútur, tíu hræðilegar mínútur og á meðan lágu allir á gólfinu og héldu um höfuðið.“

Hann segir að árásarmennirnir hafi gefið sér tíma til að hlaða byssur sínar 3-4 sinnum. Skothríðin hafi verið stöðug. „Svo fór fólk að reyna að flýja, að hlaupa yfir aðra sem lágu á gólfinu. Ég klifraði upp á svið og við fundum þar útgang.“

Hann segist hafa tekið með sér táningsstúlku sem blæddi mikið. Hann hafi borið hana úti í leigubíl og beðið leigubílstjórann að fara með hana á sjúkrahús.

Hann segist hafa séð framan í einn árásarmanninn, sá hafi verið um 20-25 ára gamall. 

„Við heyrðum fólk öskra, aðallega gíslana, og árásarmennina hrópa á þá að horfa á sig,“ segir Charles, sem einnig var á tónleikunum. Hann fór ásamt hópi fólks inn á baðherbergi og margir klifruðu upp í gat á loftinu til að fela sig.

Margir hafa enn ekki heyrt í ástvinum sínum og óttast um líf þeirra. „Claire vinkona mín var að halda upp á afmæli bestu vinkonu sinnar á tó0nleikunum. Við höfum ekkert heyrt í henni, hún svarar ekki símanum,“ segir Yvan Pokossy. „Við ætlum að trúlofast eftir þrjár vikur en nú veit ég ekki hvort ég sé hana aftur.“

Marielle Timme var ein þeirra sem faldi sig inni á baðherbergi. Þar var hún í þrjár klukkustundir.

„Við vorum mjög hrædd. Einn árásarmaðurinn var skotinn rétt hjá okkur. Við heyrðum allt. Sprengjurnar líka. Við þorðum ekki að opna fyrir lögreglunni, við vissum ekki að þetta væri lögreglan.“

Önnur ung kona segir: „Ég heyri bara skothríðina ennþá í höfðinu.“

Tónleikagestir fyrir utan Bataclan-tónleikahöllina í nótt.
Tónleikagestir fyrir utan Bataclan-tónleikahöllina í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert