„Gerið það, hjálpið mér“

Ung kona með franska fánann málaðan á kinn sína. Fólk …
Ung kona með franska fánann málaðan á kinn sína. Fólk hefur komið saman víða um heim í dag til að sýna samstöðu með Frökkum. AFP

Þeir sem lifðu árásirnar í París af og aðrir sem eru að leita ástvina sinna hafa flykkst á samfélagsmiðla í nótt og í morgun til að tjá hug sinn. Nú er ljóst að í það minnsta 128 létust í árásunum sex og að mun fleiri liggja alvarlega særðir á sjúkrahúsi.

Margir Frakkar nota myllumerkið #rechercheParis á Twitter og óska eftir upplýsingum um ástvini sem þeir hafa engar fregnir fengið af í kjölfar árásanna í gærkvöldi.

„Ef einhver er með fréttir af Lolu, sautján ára, sem var í Bataclan í kvöld, hafið samband,“ skrifar einn. Annar er í sömu stöðu: „Vinur minn svarar mér ekki, gerið það, hjálpið mér.“

Aðrir hafa loks náð sambandi við ástvini og þakka öðrum fyrir veitta aðstoð: „Takk fyrir að dreifa færslunni minni, Alice Q er á lífi!“

Um 100 manns létust í árásinni í Bataclan-tónleikahöllinni. Þar var fólk tekið af lífi með rifflum. Byssumennirnir tóku einnig gísla. 

Franski innanríkisráðherrann hefur komið upp sérstakri síðu á netinu þar sem hægt er að óska eftir upplýsingum um afdrif fólks. Hann lofar skjótum viðbrögðum. 

Parísarbúar hafa einnig notað myllumerkið #PorteOuverte (opnar dyr) og bjóða þar fólki í neyð húsaskjól, sérstaklega á þeim svæðum þar sem árásirnar voru framdar. Lögreglan hefur hert eftirlit um alla París. Útgöngubann var sett á í gærkvöldi og fáir eru enn á ferli í miðborginni. Samgöngur hafa einnig farið úr skorðun í dag og margar stofnanir og fyrirtæki eru lokuð.

„Ef fólk hefur ekki húsaskjól get ég boðið gistingu fyrir 2-3,“ segir einn Parísarbúi á Twitter. Annar segir: „Sófinn okkar getur tekið við 2-3.“

Á Facebook gat fólk svo staðfest með sérstöku appi að það væri öruggt, svo að ástvinir þyrftu ekki að hafa áhyggjur. 

Fólk hefur komið saman víða um heim í dag til …
Fólk hefur komið saman víða um heim í dag til að sýna frönsku þjóðinni samstöðu og samúð. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert