François Hollande Frakklandsforseti hefur heitið „miskunnarlausu“ stríði á hendur hryðjuverkastarfsemi. Yfirstjórn franska hersins var kvödd til fundar í forsetahöllinni í morgun.
Hollande lýsti yfir hernaði á hendur hryðjuverkamönnum er hann fór á vettvang hryðjuverkanna í tónlistarhúsinu Bataclan. „Við það fólk sem var hér viðstatt, og upplifði verknaðina grimmilegu viljum við segja að við munum leggja í hernað, sem verður miskunnarlaus,“ sagði Hollande.
Í Bandaríkjunum hefur verið gripið til ráðstafana vegna hryðjuverkanna í París sem kostuðu á annað hundrað manns lífið í gærkvöldi.
Þá efndi David Cameron forsætisráðherra Bretlands til sérstaks fundar neyðarráðsins COBRA í London í morgun um hvernig brugðist skuli við þar í landi vegna ódæðanna í París.
Loks boðaði Angela Merkel Þýskalandskanslari til sérstaks neyðarfundar ráðherra vegna árásanna í París. Hét hún frönskum stjórnvöldum öllu hugsanlegu liðsinni í baráttunni við hryðjuverkaöflin.