Árásarmennirnir í París höfðu samráð við þekkta vígamenn Ríkis íslams í Sýrlandi skömmu áður en þeir gerðu hina mannskæðu árás í borginni á föstudag. Í frétt New York Times um málið er haft eftir sérfræðingum beggja vegna Atlantshafsins að ljóst sé að árásarhópurinn fékk hjálp hryðjuverkasamtakanna við að skipuleggja og framkvæma voðaverkin.
132 eru nú látnir eftir árásirnar. Um 350 liggja enn særðir á sjúkrahúsi, þar af margir lífshættulega.
Í gær lýstu hryðjuverkasamtökin Ríki íslams sig ábyrg fyrir árásunum og hétu því að þær yrðu fleiri. Þær væru afleiðingar hernaðar Frakka í Sýrlandi. Þetta þykir sérfræðingum benda til að samtökin eru orðin mjög sterk utan sinna höfuðvígja í Sýrlandi og Írak.
Í grein New York Times segir að þó að tengsl árásarmannanna í París við Ríki íslams séu enn nokkuð óljós sé ljóst að árásarhópurinn hafi ekki verið einangraður og einn að verki.
Franskir og bandarískir sérfræðingar telja ljóst að árásirnar hafi verið það skipulagðar og tæknilega vel útfærðar að líklegt sé að árásarhópurinn hafi ekki aðeins verið innblásinn af boðskap Ríkis íslams heldur verið þjálfaður af honum og útbúinn af hans hálfu.
Þá er haft eftir evrópskum sérfræðingum að árásarmennirnir hafi átt samskipti sín á milli með dulkóðuðum skilaboðum. Ekki er staðfest hvernig þau samskipti fóru nákvæmlega fram, t.d. hvort notast hafi verið við þekkt samskiptaforrit á borð við WhatsApp, en yfirvöldum hefur reynst erfitt að fylgjast með samskiptum í gegnum slík forrit.
Í frétt New York Times segir ennfremur að hvernig árásarmennirnir báru sig að, hversu yfirvegaðir og einbeittir þeir voru, bendi til að þeir hafi fengið herþjálfun. Til marks um það hafi t.d. einn árásarmaður haldið áfram að skjóta á meðan annar hlóð byssu sína og svo koll af kolli. Þetta þykir benda til að hópurinn hafi æft sig og fengið góða þjálfun.
Í kjölfar árásanna hafa rannsakendur komist að því að árásarmennirnir voru í samskiptum við liðsmenn Ríkis íslams í Sýrlandi.
Loks kemur fram í frétt New York Times að skipulag árásanna í París hafi orðið til þess að Vesturlönd þurfi að endurskoða allar sínar upplýsingar um Ríki íslams og hvernig það starfar. Samtökin lýstu t.d. yfir ábyrgð á hrapi rússneskrar farþegaflugvélar yfir Egyptalandi nýverið. 224 fórust. Flestir efuðust um að samtökin gætu staðið að slíku hryðjuverki, þau hefðu ekki tækniþekkingu og búnað til þess.