Franskar orrustuþotur létu sprengjum rigna yfir Raqqa, eitt höfuðvígi Ríkis íslams í Sýrlandi í kvöld. Varnarmálaráðuneytið segir að í árásunum hafi þjálfunarbúðir m.a. verið eyðilagðar.
„Fyrsta skotmarkið sem var eyðilagt voru höfuðstöðvar, nýliðarbúðir og vopnabúr Ríkis íslams. Annað skotmarkið var þjálfunarbúðir,“ segir í yfirlýsingu franska varnarmálaráðuneytisins.
Í frétt Reuters segir að tólf orrustuþotur hafi tekið þátt í árásinni og að þær hafi varpað 20 sprengjum. Vélarnar fóru í loftið frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Jórdaníu.
Árásirnar voru gerðar í samvinnu við Bandaríkjaher. Þetta eru umfangsmestu sprengjuárásir sem Frakkar hafa gert í Sýrlandi hingað til.
Fljótlega eftir árásirnar í París á föstudag lýsti Frakklandsforseti yfir hernaði á hendur hryðjuverkamönnum. „Við það fólk sem var hér viðstatt, og upplifði verknaðina grimmilegu viljum við segja að við munum leggja í hernað, sem verður miskunnarlaus,“ sagði Francois Hollande, er hann heimsótti Batalcan-tónleikahúsið, þar sem mannskæðasta árásin var framin.
Bandaríkjamenn gerðu loftárásir í Raqqa á föstudag í þeim tilgangi að fella einn þekktasta áróðursmeistara Ríkis íslams, Jihadi John. Sá var breskur ríkisborgari og hafði m.a. verið böðull margra fanga hryðjuverkasamtakanna í áróðursmyndböndum þeirra. Bandaríkjamenn sögðust hafa náð markmiði sínu, að drepa Jihadi John.
Þá gerður Rússar loftárásir í þessari sömu borg í október.
Fréttaritari Sky sjónvarpsstöðvarinnar í Írak segir að ekki beri að líta svo á að um sé að ræða hefndaraðgerð vegna hryðjuverkaárásanna í París á föstudag. Hann segir að mögulega sé frekar hægt að líta svo á að bandamenn, sem hafa í sameiningu gert loftárásir á vígi Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi síðustu vikur og mánuði, hafi leyft Frökkum að „sýna hnefann“ í dag. Hann segir árásirnar í samræmi við frönsk og alþjóðleg lög.