Nú er ljóst að í það minnsta þrír franskir ríkisborgarar sprengdu sjálfa sig í loft upp í árásunum á föstudag. Tveir þeirra bjuggu í Brussel í Belgíu, segir í yfirlýsingu frá saksóknara Parísar, Francois Molins.
Hann segir að einn þeirra hafi verið tvítugur karlmaður sem hafi sprengt sig í loft upp við franska þjóðarleikvanginn, Stade de France. Annar hafi verið 31 árs og sprengt sig á bar við Boulevard Voltaire.
Strax á laugardag voru borin kennsl á einn árásarmann. Sá hét Omar Ismail Mostefai, 26 ára franskur ríkisborgari. Sá tók þátt í árásinni á Bataclan-tónleikahöllina. 89 manns féllu í þeirri árás.
Kennsl voru borin á hann með fingrafari og í ljós kom að hann hafði áður verið bendlaður við róttæka íslamista. Hann hafði þó ekki verið talinn tengjast hryðjuverkum fyrr en nú.