„Tugir voru skotnir fyrir framan mig“

Frá París um helgina.
Frá París um helgina. AFP

„Maður heldur að svona geti ekki komið fyrir sig. Þetta var bara föstudagskvöld á rokktónleikum. Hamingja einkenndi andrúmsloftið og allir brostu og dönsuðu. Þegar mennirnir komi inn um innganginn og fóru að skjóta þá héldum við í einfeldni okkar að það væri hluti af sýningunni. Þetta var ekki bara hryðjuverkaárás, þetta var fjöldamorð.“

Þannig hefst frásögn Isobel Bowdery sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gær í kjölfar hryðjuverkanna í París á föstudagskvöldið, en hún var í tónleikahúsinu Bataclan þar sem hátt í eitt hundrað manns létu lífið. „Tugir manna voru skotnir fyrir framan mig. Blóð var alls staðar á gólfinu. Grátur karlmanna, sem héldu á líkum unnusta sinna, heyrðist í þessu litla tónleikahúsi. Framtíð fólks lögð í rúst, fjöðlskyldur særðar hjartasári. Á einu augabragði.“

Bowdery lýsir því síðan hvernig hún hafi ákveðið að þykjast látin til þess að reyna að bjarga lífi sínu. Hún hafi legið þannig í klukkustund, haldið niðri í sér andanum og reynt að hreyfa hvorki legg né lið. Reynt að gráta ekki. Hún hafi á ótrúlegan hátt lifað af. Fjölmargir aðrir hafi hins vegar látið lífið. Fólk sem hafi aðeins verið að gera það sama og hún. Skemmta sér á föstudagskvöldi.

Bowdery segist hafi séð hryðuverkamennina ganga um á milli líkanna og beint byssum sínum að þeim. Sú mynd muni fylgja henni alla ævi. Þeir hafi ekki haft neina samúð með mannslífum. Það hafi ekki virkað raunverulegt að fylgjast með þeim. Hún hafi búist við því á hverri stundum að vera vakin og sagt að þetta hafi aðeins verið martröð.

Margir hafi reynst hetjur við þessar aðstæður þegar á reyndi. Til að mynda fólk sem hafi hughreyst hana eftir að henni var bjargað, boðist til að hýsa hana og keypt fyrir hana föt svo hún þyrfti ekki að vera í blóðugri blússu lengur. Það veitti henni von um að heimurinn gæti orðið betri. Komið yrði í veg fyrir að svona lagð gæti gerst aftur. Þegar hún hafi legið á gólfinu í blóði annarra hafi hún hugsað um ástvini sína og það sama hafi aðrir þarna klárlega gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert