Francois Hollande, forseti Frakklands, mun funda með leiðtogum Bandaríkjanna og Rússlands til að ræða leiðir til þess að tortíma Ríki íslams og kalla eftir sterku bandalagi. Hollande ávarpaði þingið í Versölum í dag en þetta er í fyrsta skipti síðan 2009 sem forseti Frakklands ávarpar þingið þar. Þá var það Nicolas Sarkozy og tilefnið var efnahagskreppan.
„Frakkland er í stríði,“ sagði Hollande og bætti við að hryðjuverkamennirnir hefðu ráðist á Frakkland á föstudaginn því „Frakkland er land frelsis, vegna þess að Frakkland er heimili mannréttinda.“
„Lýðræðisríkið okkar hefur sigrað andstæðinga sem voru mun erfiðari en þessir hugleysingjar,“ sagði Hollande. „Í dag syrgir landið okkar. Við minnumst þeirra sem dóu þegar ráðist var á þá af vopnuðum mönnum á götum Parísar og úthverfum borgarinnar.“
Hollande hét því jafnframt að auka hernaðaraðgerðir Frakka í Sýrlandi verulega og á fimmtudaginn mun flugvélamóðurskipið Charles de Gaulle leggja af stað til Sýrlands.
„Þeir sem bera ábyrgð á árásinni í París þurfa að vita að glæpir þeirra styrkja einbeitni Frakklands til þess að berjast við og tortíma þeim,“ sagði Hollande í dag. „Við verðum að gera meira. Sýrland er orðin stærsta verksmiðja hryðjuverkamanna sem heimurinn hefur nokkurn tímann séð.“
Hollande kallaði eftir því að landamæraeftirlit innan Evrópusambandsins yrði hert. „Ef Evrópa getur ekki stjórnað landamærum sínum við aðrar heimsálfur, þarf að snúa aftur til landamæra landanna sjálfra. Það myndi gera Evrópusambandið óvirkt.“
Forsetinn tilkynnti jafnframt að aukið fjármagn verði sett til lögreglu og annarra varnaraðila.
Enginn niðurskurður mun eiga sér stað í hernum fyrr en í fyrsta lagi 2019 og 5000 ný löggæslustörf verða búin til næstu tvö árin. Hollande sagði að þetta myndi leiða til aukinna fjárframlaga en bætti við að öryggi væri mikilvægara en reglur Evrópusambandsins þegar það kemur að eyðslu fjármuna.
Mun forsetinn leggja til lagafrumvarp sem framlengir neyðarástand í landinu í þrjá mánuði í viðbót og sagði þörf á því að breyta ýmsu í stjórnarskránni í ljósi nýliðinna atburða.
Að sögn forsetans þarf stjórnarskráin að geta svipt fólk ríkisborgararétti og vísað því úr landi teljist það tengjast hryðjuverkum.
„Villimenn munu ekki hindra okkur í því að lifa eins og við viljum lifa. Að lifa til fulls,“ sagði forsetinn að lokum. „Hryðjuverk munu aldrei tortíma lýðveldinu, því lýðveldið tortímir hryðjuverkum.“