„Það sem þeir óttast er samstaða“

Kona vottar látnu virðingu sína við Bataclan-tónlistarhúsið.
Kona vottar látnu virðingu sína við Bataclan-tónlistarhúsið. AFP

„Sem stoltur Frakki þá er ég jafn miður mín og aðrir vegna atburðanna í París. En ég er hvorki hissa né vantrúa. Ég þekki Ríki íslam. Ég varði tíu mánuðum sem gísl Rí og veit fyrir víst að sársauki okkar, sorg, vonir og líf snerta þá ekki. Veröld þeirra er önnur.“

Þannig hljóðar upphaf skoðanapistils blaðamannsins Nicolas Hénin sem birtist á vefsvæði Guardian í kvöld. Hann segist óttast að sprengjuárásir Frakka í Raqqa í kjölfar árásanna í París á föstudag muni gera vont ástand verra.

Sem fyrr segir varði Hénin tíu mánuðum í haldi hryðjuverkasamtakanna Ríki íslam og hitti m.a. böðulinn Mohammed Emwazi, sem einnig hefur verið kallaður Jihadi John. Emwazi komst í fréttirnar eftir að hann birtist í myndböndum þar sem vestrænir gíslar Ríkis íslam voru teknir af lífi, en margir þessara manna voru í haldi á sama tíma og Hénin.

„Enn í dag tala ég stundum við þá á samfélagsmiðlum og ég get sagt ykkur að margt af því sem ykkur finnst um þá byggir á markaðssetningu þeirra og almannatengslum,“ segir Hénin um liðsmenn Ríkis íslam.

„Þeir kynna sig fyrir almenningi sem ofurhetjur en fjarri myndavélinni eru þeir á margan hátt brjóstumkennanlegir; götukrakkar á hugmyndafræði- og valdafylleríi. Í Frakklandi eigum við máltæki um heimsku og illsku. Mér fannst þeir heimskari en þeir voru illir. En maður ætti ekki að vanmeta möguleika heimskunnar til morða.“

Hénin segir liðsmenn hryðjuverkasamtakanna fylgjast með fréttum. Þeir séu sannfærðir um að þeir séu á hinni einu réttu vegferð, sem muni á endanum ná hámarki með bardaga milli múslima og annarra. Blaðamaðurinn telur að Frakkland hafi orðið skotmark samtakanna vegna þess að þau hafi talið að þar gætu þau mögulega sáð fræjum sundrungar.

Hann segir viðbrögð franskra yfirvalda, þ.e. sprengjuárásirnar í Raqqa, mistök.

„Ég afsaka ekki Rí. Hvernig gæti ég það? En allt segir mér að þetta séu mistök. Sprengjuárásirnar munu verða risastórt tákn um réttláta reiði,“ segir hann.

Hénin segir að samtökin muni falla, en það verði vegna pólitíkur.

„Ég þekki þá: þeir gera ráð fyrir sprengingum. Það sem þeir óttast er samstaða.“

Grein Hénin má finna hjá Guardian.

Eiffel-turninn baðaður ljósi í fánalitum Frakklands.
Eiffel-turninn baðaður ljósi í fánalitum Frakklands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert