Cameron vill hefja loftárásir í Sýrlandi

David Cameron.
David Cameron. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði á breska þinginu í dag að hann muni setja í gang „heildstæða áætlun“ til þess að ráðast á Ríki íslams með loftárásum í Sýrlandi. Hann sagði að í ljósi árásanna í París á föstudaginn þyrfti að auka við loftárásir í Sýrlandi. „Við getum ekki búist við, og  ættum ekki að búast við því að aðrir beri byrðina og horfi framan í hætturnar þegar það kemur að því að verja okkar land,“ sagði Cameron.

Hann sagðist jafnframt ætla að svara persónulega skýrslu utanríkisnefndar sem lagði til fyrr í þessum mánuði að Bretar myndu ekki taka þátt í átökum í Sýrlandi fyrr en alþjóðleg áætlun væri til staðar um hvernig best væri að ljúka stríðinu þar í landi.

Cameron sagði að ástæður fyrir loftárásum í Sýrlandi væru enn sterkari í ljósi nýliðinna atburða og að hann „vildi gera það rétta fyrir landið okkar“.

Hann sagði Ríki íslams vera ógn gegn Bretlandi og að Raqqa væri þar sem árásir þeirra væru skipulagðar.

Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, sagðist vera á móti hernaðaraðgerðum Breta í Sýrlandi og sagði pólitíska sáttagerð nauðsynlega, ekki fleiri sprengjur.

Umfjöllun Sky News í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert