Abdelhamid Abaaoud, sem að sögn franskra yfirvalda skipulagði árásirnar á París á föstudaginn er 27 ára gamall. Hann er sonur búðareiganda, sem kom upphaflega frá Marokkó. Abaaoud gekk til liðs við Ríki íslams árið 2013 og hefur m.a. birst í myndbandi samtakanna þar sem hann keyrir sendiferðabíl sem dregur á eftir sér limlest lík á leið í fjöldagröf. Á hann að hafa fengið yngri bróður sinn til þess að ganga til liðs við samtökin þegar hann var aðeins 13 ára gamall.
The Independent segir frá þessu.
Abaaoud fjölskyldan hafði lýst því yfir að Abbaoud hefði dáið í Sýrlandi en lögregla telur nú það hafa verið misskilning. Hann er vel þekktur innan lögreglunnar í Belgíu en honum hefur verið lýst sem höfuðpaur hryðjuverkastarfsemi í bænum Verviers. Sú starfsemi var gerð óvirk í janúar eftir skotbardaga milli lögreglu og hryðjuverkamannanna þar sem tveir hryðjuverkamenn létu lífið.
Eftir atvikið í Verviers sagði faðir Abbaoud, Omar, að hann skammaðist sín fyrir son sinn. „Abdelhamid hefur orðið okkur til skammar. Líf okkar eru eyðilögð,“ sagði hann og bætti við að hann óttaðist að sonur sinn hefði skipulagt árásir á Belgíu, landið sem hefði komið vel fram við fjölskyldu hans. Hann lýsti því hvernig hann hefði komið til Belgíu til þess að vinna í námu fyrir 40 árum.
„Við höfum fikrað okkur upp metorðastigann. Ég eignaðist þessa fatabúð og hafði keypt eina fyrir Abdelhamid. Við lifðum góðu lífi, jafnvel frábæru. Abdelhamid var ekki erfitt barn og var orðinn góður kaupmaður,“ lýsti Omar Abbaoud.
Það breyttist skyndilega árið 2013 þegar Abbaoud fór til Sýrlands. „Ég spyr mig á hverjum degi af hverju,“ bætti Omar Abbaoud við.
Í Sýrlandi gekkst Abbaoud ýmist undir nöfnunum Abu Omar Soussi eða Abu Umar al-Baljiki. Hann hefur reglulega birst í áróðri Ríkis íslams þar sem hann hvetur til ofbeldis.
Hann er sagður hafa gengið til liðs við hóp ungra belgíska öfgamanna sem kölluðu sig al-Battar Katiba, eða „sverð spámannanna“. Einn félagi hans úr hópnum skrifað á samfélagsmiðla eftir árásirnar á skrifstofur Charlie Hebdo og matvöruverslun í París í janúar að þær væru „aðeins byrjunin“.
Lögregla telur jafnframt að Abaaoud hafi hjálpað við skipulagningu á árás í franskri lest í ágúst en þar var árásarmaðurinn stöðvaður af fjórum farþegum.
Hann á einnig að hafa tekið þátt í mörgum vopnuðum ránum með öðrum tveggja bræðra sem eru sagðir tengjast árásunum á föstudaginn.