Alvarlegar glufur í eftirlitinu

Landamæraeftirlit í Hollandi.
Landamæraeftirlit í Hollandi. AFP

Ástæða þess að evrópskir jíhadistar geta ferðast allt að því óáreittir frá Sýrlandi til Evrópu er að í sumum ríkjum er aðeins einum af hverju hundrað flett upp á gátlista Evrópusambandsins.

Frá þessu segir Telegraph og hefur eftir heimildarmönnum að mögulegt sé að eftirlýstir hryðjuverkamenn komist gegnum landamæraeftirlit þar sem þeir séu oftast aðeins beðnir um að framvísa skilríkjum.

Þá hefur miðillinn eftir heimildarmönnum innan ESB að ómögulegt sé að vita hvort þeim þúsundum flóttamanna sem nú streyma um Evrópu hafi verið flett upp á gátlista sambandsins.

Samkvæmt Telegraph er 20-30% ríkisborgara aðildarríkja Evrópusambandsins að meðaltali flett upp í gagnabanka Schengen yfir erlenda bardagamenn sem hafa ferðast til Sýrlands og Írak.

Að minnsta kosti þrír af árásarmönnunum sem létu til skarar skríða í París á föstudag eru taldir hafa barist í Sýrlandi áður en þeir snéru aftur til að fremja voðaverkin. Þeir sem kennsl hafa verið borin á eru taldir vera evrópskir ríkisborgarar.

Í frétt Telegraph segir að Abdelhamid Abaaoud, maðurinn sem talinn er hafa skipulagt árásirnar, hafi hreykt sér af því að hafa ferðast nokkrum sinnum milli Sýrlands og Belgíu. Á hann að hafa sagt tímariti hryðjuverkasamtakanna að landamæraverðir hafi ekki borð kennsl á hann, jafnvel þótt öryggisstofnanir hafi leitað hans og að mynd af honum hafi birst í fréttum.

Þá var Samy Amimour, sem sprengdi sig í loft upp í Bataclan-tónlistarhúsinu, settur á gátlista eftir að hafa ferðast til Jemen árið 2012 en gat engu að síður ferðast til Sýrlands ári síðar og aftur til Frakklands, þrátt fyrir að alþjóðleg handtökuskipun hefði þá verið gefin út á hendur honum.

Á gátlista Schengen-samstarfsins er að finna upplýsingar um 4.000 bardagamenn, auk hundruð þúsunda stolinna vegabréfa, eftirlýsta glæpamenn og bifreiðar, og fólk sem er saknað. Það er hins vegar undir einstaka ríkjum komið hvernig þau nýta sér gagnabankann og samkvæmt viðmiðunarreglum Evrópusambandsins á aðeins að viðhafa „lágmarks“ eftirlit með evrópskum ríkisborgurum.

Samkvæmt Telegraph þýðir þetta að í mörgum tilvikum felst eftirlitið aðeins í því að starfsmaður lítur örstutt á vegabréf viðkomandi áður en honum er hleypt í gegn. Heimildarmenn blaðsins segja að hlutfall þeirra sem einstaka ríki fletta upp í gátlistanum sé allt frá 1 og upp í 100%, en meðaltalið sé 20-30%.

Eftir að mönnum varð ljóst í hvað stefndi varðandi hinn mikla fjölda flóttamanna sem nú streymir til Evrópu hafa ráðamenn varað við því að Schengen-samstarfið sé í hættu og að því verði ekki áfram haldið grípi ríki til þess að „reisa“ gömul landamæri. Aðrir hafa hins vegar varað við því að á meðal flóttafólksins kunni að leynast einstaklingar sem Evrópubúum standi ógn af.

Ítarlega frétt um málið er að finna á vefsvæði Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert