„Á föstudagskvöldið tókstu líf einstakrar manneskju. Ástar lífs míns, móður sonar míns. En þú munt aldrei fá hatur mitt.“
Þetta eru fyrstu línur opins bréfs sem Frakkinn Antoine Leiris skrifaði til árásarmannanna í París. Eiginkona hans, Helene, lést í árásinni á Bataclan tónleikahöllina. Þau eiga saman 17 mánaða son.
Bréfi Leiris, sem hann birti á Facebook, hefur verið deilt fleiri þúsund sinnum. BBC fékk hann til að lesa það á ensku í myndskeiði sem sjá má hér að neðan.
„Ég mun ekki gefa þér þá gjöf að hata þig,“ segir hann við morðingja eiginkonu sinnar. „Viltu að ég verði hræddur, óttist samborgara mína? Að fórna frelsi mínu? Þá hefur þú tapað.“
Leiris segist nú loks hafa fengið að sjá lík eiginkonu sinnar. „Hún var alveg jafn falleg og þegar ég sá hana síðast á föstudagskvöld, jafn falleg og þegar ég varð innilega ástfanginn af henni fyrir meira en 12 árum.“
Hann segist vissulega sorgmæddur. „Nú erum við bara tveir, sonur minn og ég en við erum máttugri en allir herir heimsins.“
Hann segir að nú haldi lífið áfram með sínum hversdagslegum hlutum. „Hann mun halda áfram að leika sér eins og hvern annan dag og hann mun móðga þig með hamingju sinni og frelsi.“
“I won’t give you the gift of hating you” – Antoine Leiris’ powerful tribute to his wife, who died in the Bataclan during the #ParisAttacks bbc.in/1NbYE0q
Posted by BBC News on Wednesday, November 18, 2015