Sprengdi sig upp í áhlaupinu

Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun. AFP

Saksóknari hefur staðfest við fjölmiðla að kona hafi sprengt sig upp í áhlaupi lögreglu og hers í úthverfi Parísar, Saint Denis, í morgun. Fimm voru handteknir.  Ekki hefur verið upplýst um að fleiri hafi látist í áhlaupinu en fréttir einhverra fjölmiðla herma að einn eða tveir til viðbótar hafi látist. BBC hefur það eftir saksóknara að einn til viðbótar hafi látist og eins herma heimildir AP og BBC að talið sé að einn maður sé enn inni í íbúðinni en ekkert hefur verið gefið upp um hvort það er karl eða kona.

Bætt við klukkan 10:16

Heimildir Guardian innan lögreglunnar herma að maður sem var eftirlýstur í tengslum við árásirnar á föstudag hafi verið skotinn til bana af leyniskyttu lögreglunnar í áhlaupinu í morgun.  Ekki kemur fram hver hann er.

 

Ró er að færast yfir á vettvangi og ekki heyrast lengur skothvellir þaðan en nánast stöðug skothríð og sprengingar hafa verið þar frá því aðgerðirnar hófust. Lögreglan segir að aðgerðirnar standi enn yfir en fimmtán manns voru fluttir á brott úr fjölbýlishúsinu þar sem íbúðin er, samkvæmt frétt Figaro.

Af þeim fimm sem voru handteknir voru þrír inni í íbúðinni en tvennt, maður og kona voru handtekin í nágrenninu.

Að minnsta kosti þrír lögreglumenn særðust í aðgerðinni sem var gerð í kjölfar hryðjuverkaárása í París á föstudagskvöldið þar sem 129 létust og yfir 350 særðust.

Aðgerðirnar beindust að liðsmanni Ríkis íslams, Belganum Abdelhamid Abaaoud, sem talið er að hafi verið höfuðpaurinn á bak við árásirnar á föstudagskvöldið. Hingað til hefur verið talið að hann hafi stýrt aðgerðum frá Sýrlandi en ekki hefur fengist staðfest að hann hafi verið íbúðinni á mótum  Rue de la Repu­blique og Rue Cor­bill­on, ekki langt frá þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France.

Aðgerð lög­reglu hófst um 4:30 staðar­tíma, klukk­an 3:30 að ís­lensk­um tíma og tók lögregla, slökkvilið og herinn þátt. Saint Denis hverfinu var lokað, engar almenningssamgöngur ganga þangað, skólar verða lokaðir í hverfinu í dag og verslanir eru lokaðar. Þeir sem vinna í hverfinu en búa annars staðar eru beðnir um að reyna ekki að komast til vinnu.

Svæðið þar sem aðgerðir lögreglu eru var allt girt af og íbúar beðnir um að halda sig innandyra og fjarri gluggum. 

Í tilkynningu frá saksóknara í morgun kemur fram að ættingjar tveggja þeirra sem sprengdu sig upp í Bataclan höllinni á föstudagskvöldið hafa verið látnir lausir úr haldi en fjölskyldumeðlimir þeirra Omar Ismail Mostefai og Sami Amimour, voru handteknir í kjölfar árásanna. Enginn þeirra var ákærður.

Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun. AFP
Franska lögreglan að störfum í Saint Denis hverfinu í París …
Franska lögreglan að störfum í Saint Denis hverfinu í París í morgun. AFP
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun. AFP
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun. AFP
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun. AFP
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun. AFP
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu í Saint Denis hverfinu í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert