Lögreglan lýsir hryllingnum í Bataclan

Tónleikagestir fyrir utan Bataclan-tónleikahöllina aðfaranótt laugardags.
Tónleikagestir fyrir utan Bataclan-tónleikahöllina aðfaranótt laugardags. AFP

Svartur Volkswagen Polo renndi upp að dyrum Bataclan tónleikahallarinnar klukkan 21.40 að staðartíma í París á föstudagskvöld. Þrír vopnbúnir menn yfirgáfu bifreiðina og héldu inn í höllina. Tæpum þremur klukkustundum seinna voru þeir látnir, en aðeins eftir að hafa myrt 89 manns og alvarlega sært 99 til viðbótar.

Lögreglumenn sem kallaðir voru út á vettvang hafa ekki leyfi til að tjá sig við fréttamiðla um það sem fór fram í Bataclan höllinni. Talsmaður verkalýðsfélags lögreglumanna sætir hins vegar ekki sömu takmörkunum og tjáði hann sig í dag við fréttastofu breska ríkisútvarpsins.

„Inni í höllinni var einhver sem gat talað við lögreglu í gegnum síma. Hann var í felum í herbergi sem hýsti tæknibúnað og þaðan gat hann sagt okkur að hann heyrði ennþá byssuskot. Hann gat heyrt að þeir voru ennþá að taka fólk af lífi.“

Talsmaðurinn, Nicolas Comte, segir að þá hafi sérþjálfað lögreglulið ráðist inn í bygginguna.

„Fyrst héldu þeir að þeir væru að vaða vatn, áður en þeir áttuðu sig á að þetta var blóð.“

27 kúlur hæfðu skjöld lögreglu

„Þeir þurftu að fikra sig áfram í myrkrinu og stíga yfir líkamsleifar þeirra látnu. Þeir sem höfðu særst lágu þarna líka og kölluðu til lögreglumannanna, grátbáðu þá um að hjálpa sér. Einhverjir reyndu að grípa í lögreglumennina þar sem þeir gengu framhjá þeim.

En þeir gátu ekki hjálpað þeim. Þeir þurftu að gera hryðjuverkamennina óvirka áður en þeir gætu bjargað nokkrum.“

Hryðjuverkamennirnir hófu þá skothríð gegn lögregluliðinu sem þokaðist fram á móti þeim. 27 kúlur hæfðu skjöld sem lögreglumenn skýldu sér á bak við.

Þurftu að klára þetta í snatri

„Það voru í kringum tuttugu gíslar á milli lögregluliðsins og hryðjuverkamannanna. Liðsmenn sérþjálfuðu sveitarinnar áttuðu sig þá á að þeir þyrftu að klára þetta í snatri. Þeim tókst að skjóta einn þeirra og, um leið og hann sá það gerast, sprengdi annar sig í loft upp.“

Þá fyrst varð mönnunum ljóst hvílíkur hryllingur blasti við þeim.

„Þeir sáu tugi ofan á tugi látinna manneskja liggjandi hver ofan á annarri, sumar þeirra með skelfilega áverka.“

„Mörg þeirra voru virkilega ung,“ sögðu meðlimir sveitarinnar við mig. „Við sáum inn í helvíti í kvöld.“

Meðlimir sérsveitarinnar ásamt skildinum sem bjargaði lífi þeirra.
Meðlimir sérsveitarinnar ásamt skildinum sem bjargaði lífi þeirra. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert