Abdelhamid Abaaoud tengdist fjórum af sex fyrirhuguðum árásum sem frönskum öryggissveitum tókst að koma í veg fyrir í landinu frá því í vor. Þetta sagði innanríkisráðherra Frakka, Bernard Cazenueve, á fundi í dag. Hann segir að engar upplýsingar hafi borist frá öðrum Evrópulöndum löndum varðandi Abaaoud fyrir hryðjuverkin í París á föstudag. Abaaoud er talinn vera höfuðpaur hópsins sem réðst samtímis á sex skotmörk í París, m.a. tónleikahöll, íþróttaleikvang og veitingastaði. Síðan þá hafa hins vegar ýmsar upplýsingar borist um hvað Abaaoud hafði fyrir stafni í öðrum löndum, m.a. Belgíu og á Spáni.
Abaaoud féll í áhlaupi frönsku lögreglunnar á íbúð í París í gærmorgun.
Cazenueve segir að árásirnar sem komið var í veg fyrir hafi átt að vera með svipuðu sniði og sú sem tókst að framkvæmda í París fyrir tæpri viku. Þær hafi verið skipulagðar í öðrum löndum en Frakklandi af íslömskum öfgamönnum sem búa í Evrópu. Þeir hafi þjálfun og vopn að utan til að undirbúa árásirnar.
Cazeneuve segir nú nauðsynlegt að Evrópusambandslöndin taki höndum saman í baráttu gegn hryðjuverkum. Hann hvetur öll löndin til að herða öryggismál á landamærum sínum. „Evrópa verður að vakna og vera skipulögð,“ sagði ráðherrann á fundi í dag.