Stjórnvöld í Kína heita því að sækja Ríki íslams til saka fyrir að taka kínverskan gísl af lífi.
Hryðjuverkasamtökin tilkynntu í gær að Kínverjinn Fan Jinghui og Norðmaðurinn Ole Johan Grimsgaard-Ofstad hafi verið drepnir en þeir höfðu verið í haldi samtakanna um nokkurt skeið.
Forseti Kína, Xi Jinping, fordæmdi aftökurnar harkalega en Fan er fyrsti Kínverjinn, svo vitað sé, sem Ríki íslams hefur tekið af lífi. Utanríkisráðherra Kína segir að ríkisstjórnin muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að draga vígamennina til ábyrgðar.
Hingað til hafa Kínverjar haldið sig til hlés í baráttunni gegn Ríki íslams og borið fyrir sig að þeir vilji ekki skipta sér af utanríkismálum annarra landa. En nú gæti orðið breyting þar á. Kínversk stjórnvöld hafa þó ekki enn svarað því hvort að þau muni taka þátt í loftárásum á vígi hryðjuverkasamtakanna í Sýrlandi og Írak.
Frétt mbl.is: Norðmaðurinn líklega dáinn