Á innan við viku frá árásunum í París á föstudag hefur öryggisyfirvöldum í Frakklandi tekist að komast á slóðir og útrýma eftirsóttum jíhadista og meintum höfundi voðaverkanna, Abdelhamid Abbaoud.
En á meðan rannsakendur rekja umfangsmikinn og flókinn vef vísbendinga um vel skipulagðar aðgerðir, sem áttu sér stað undir nefi evrópskra leyniþjónusta, er stórum spurningum enn ósvarað.
Hinn belgíski jíhadisti, sem á uppruna sinn að rekja til Marokkó, var einn af þekktari evrópsku vígamönnum Ríkis íslam og birtist í nokkrum ógeðfelldum myndböndum. Þrátt fyrir það virðist hann hafa sloppið framhjá öryggisneti eftirlitsstofnanna eftir að hann ferðaðist frá Evrópu til Sýrlands 2014.
Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, sagði í dag að Abaaoud, sem hefur verið bendlaður við skipulagningu fjögurra hryðjuverka í landinu á þessu ári, hefði sinnt veigamiklu hlutverki í árásunum í París.
„Okkur bárust engar upplýsingar frá ríkjum Evrópu um að hann kynni að hafa farið þar um áður en hann kom til Frakklands,“ sagði Cazeneuve. Ráðherrann sagði að aðeins á mánudag, þremur dögum eftir hina hörmulegu árásir, hefðu öryggisstofnanir í ríki utan Evrópu gefið til kynna að þau hefðu vitneskju um komu hans til Grikklands.
Rannsókn á þætti Abaaoud stendur nú yfir, á sama tíma og leiðtogar Evrópu reyna að komast að því hvað fór úrskeðis.
Lögregluyfirvöld í Frakklandi hafa borið kennsl á fjóra af þeim sjö árásarmönnum sem létust á föstudag, í árásum eða aðgerðum lögreglu sem náðu m.a. til íþróttaleikvangs, tónlistarhúss og veitingastaða.
Talið er að þeir hafi unnið í þremur teymum; eitt lét til skarar skríða við Stade de France, annað gegn veitinga- og öldurhúsum, og hið þriðja í Bataclan-tónlistarhúsinu.
Áttundi árásarmaðurinn, Salah Abdeslam, er á flótta og myndbandsupptökur gefa til kynna að níundi árásarmaðurinn sé einnig ófundinn.
Rannsóknarvinna leiddi til áhlaups lögreglu á íbúðahúsnæði í úthverfinu Saint-Denis, þar sem Abaaoud var drepinn. Aðgerðirnar vöktu hins vegar fleiri spurningar en þær svöruðu, þar sem átta voru handteknir. Upplýsingar um þessa einstaklinga og mögulega aðkomu þeirra að árásunum liggja ekki fyrir.
Þá hafa borist fregnir af því að kona hafi sprengt sig í loft upp í Saint-Denis.
Nærri líkamsleifum eins þriggja sjálfsmorðssprengjumanna við Stade de France fannst sýrlenskt vegabréf, en talið er að það sé mögulega stolið eða falsað. Hvort sem er, þá notaði einhver umrætt vegabréf til að skrá sig sem hælisleitanda í Grikklandi og síðar í Króatíu.
Þar sem vitað er að Abaaoud átti viðkomu í Grikklandi vaknar sú spurning hvort Ríki íslam hafi viljandi reynt að koma sökinni á flóttamenn í þeim tilgangi að valda sundrung í Evrópu.
Sannleikurinn gæti skipt sköpum fyrir Evrópusambandið, þar sem hægri flokkar hafa þegar vísað til árásanna í París í ræðum sínum gegn móttöku flóttafólks.
Þrír sjálfsmorðssprengjumenn létu til skarar skríða fyrir utan þjóðarleikvanginn Stade de France á meðan knattspyrnuleikur Frakklands og Þýskalands stóð yfir. Áhorfendur skiptu þúsundum.
Árásarmennirnir hefðu getað valdið blóðbaði og aukið álag á lögreglu, sem var kölluð á vettvang á þó nokkrum stöðum í borginni á föstudag. Hins vegar lést aðeins einn við leikvanginn, að hryðjuverkamönnunum ótöldum.
Lentu þeir í vandræðum? Tók einhver annar ákvörðun um að sprengja vesti þeirra úr fjarlægð? Eða mistókst þeim að komast inn á leikvanginn og ákváðu engu að síður að sprengja sig í loft upp samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun?
Þessu er enn ósvarað.
Annar sjálfsmorðssprengjumaður, Brahim Abdeslam, bróðir Salah, sprendi sig í loft upp fyrir utan kaffihús á Boulevard de Voltaire og þar lét enginn lífið nema hann sjálfur.
Tveir aðrir sprengdu sig í loft upp í Bataclan-tónlistarhúsinu á meðan áhlaup lögreglu stóð yfir. „Við skutum, sáum skuggan hverfa og síðan varð sprenging,“ sagði einn þeirra lögreglumanna sem fyrstur var á vettvang. „Við vitum ekki hvernig þetta gerðist en niðurstaðan var sú að jíhadistarnir tveir sprungu í loft upp.“
Þriðji árásarmaðurinn í Bataclan var skotinn til bana af lögreglu.
Saksóknarinn Francois Molins hefur talað um árásirnar sem umfangsmikla og vandlega skipulagða aðgerð. Hann sagði að bifreiðarnar þrjár sem fundust í París eftir árásirnar hefðu verið teknir á leigu af Abdeslam-bræðrum í Belgíu og verið í samfloti til borgarinnar í aðdraganda árásanna.
Fjórða bifreiðin var notuð til að flytja Salah Abdeslam aftur til Belgíu næsta dag. Tveir einstaklingar sem einnig voru í bifreiðinni hafa verið handteknir í Belgíu og ákærðir fyrir hryðjuverk og aðkomu að starfsemi hryðjuverkasamtaka.
Mennirnir heita Mohammed Amri, 27 ára, og Hamza Attou, 20 ára. Þáttur þeirra hefur ekki verið skýrður að fullu.
Þá fann lögregla farsíma í ruslatunnu fyrir utan Bataclan, en á símanum voru skilaboð þar sem stóð: „Við erum reiðubúnir, leggjum í hann.“ Ekki liggur fyrir hverjum skilaboðin voru ætluð.
Abedeslam-bræður leigðu einnig þrjú herbergi í París, þar sem unnið er að vettvangsrannsóknum. Það er ekki vitað hvort einhver tengsl eru á milli bræðranna og íbúðarinnar þar sem Abaaoud var drepinn í gær.