Höfuðpaur hryðjuverkanna í París sást úti á götu borgarinnar að drekka bjór og reykja kannabis eftir ódæðisverkin. Þá sást hann einnig á eftirlitsmyndavélum á lestarstöð í höfuðborginni nóttina eftir hryðjuverkin. Þá var hann staddur í Croix de Chavaux-lestarstöðinni, skammt frá staðnum þar sem bíll af gerðinni Seat fannst en sá hafði verið notaður af árásarmönnunum sem réðust á veitingastaði og bari í borginni.
Abdelhamid Abaaoud féll svo í áhlaupi lögreglunnar í St-Denis hverfinu í París á miðvikudagsmorgunn.
Fasteignasalinn Amel Alla segir í samtali við Sky-fréttastofuna að hún hafi séð Abaaoud fyrir utan íbúðina í St-Denis hverfinu um síðustu helgi, nokkru eftir hryðjuverkin. 129 manns létust í árásunum sex á föstudag.
„Ég sá hann við bygginguna með öllum þessum mönnum, þeir voru kannski átta eða tíu saman,“ segir hún. Alla fer um götuna á hverjum degi. „Ég heilsaði öllum í hópnum því þeir sátu þarna alla daga en ég tók sérstaklega eftir honum því hann var klæddur í íslömsk klæði og með hatt. Hinir voru í venjulegum fötum eins og þeir voru alltaf.“
Alla segist svo hafa séð mynd af honum í sjónvarpinu. Systir hennar hafi spurt: „Er þetta ekki náunginn sem við sáum um daginn?“
Alla segir hópinn hafa verið að drekka bjór og reykja kannabis. „Þeir eru oft úti á götu svo ég þekki þá.“
Abaaoud er 28 ára Belgi, ættaður frá Marokkó. Hann er einnig talinn tengjast fjórum af sex fyrirhuguðum hryðjuverkaárásum í Frakklandi sem lögreglunni tókst að koma í veg fyrir síðustu sex mánuði.